Aðalfundur 2024

Fundargerð 

Mættir eru 12 fundargestir, auk fimm stjórnararmanna, framkvæmdarstjóra og fundarstjóra.

1.       Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður setur fundinn og leggur til að Darri Gunnarsson verði fundarstjóri og samþykkja mættir fundargestir það. Þá er lagt til að Ásta Kara Sveinsdóttir verði fundarritari og er það samþykkt af fundargestum.

2.       Framkvæmdarstjóri fer yfir upplýsingar um fjölda Sörlafélaga en þeim hefur fjölgað milli ára. Eru nú 1028 talsins. Gaman að við skilum brjóta 1000 félaga múrinn á 80 afmælisári.

3.       Atli Már formaður fer yfir skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.

Haldinn var afmælishátið þar sem félagið varð 80 ára á árinu.  Stjórnin ákvað að halda uppá dag íslenska hestsins 1. maí, dagurinn er alþjóðlegur og var vel sóttur hjá félaginu. Æskulýðsnefnd sá um sýningu í reiðhöllinni. Sýningin var flott og tóks í alla staði vel. Formaður hrósar þeim sem komu að sýningunni sérstaklega þar sem dagurinn tókst mjög vel til. Mikill fjöldi fólks mætti og mikið líf hjá félaginu.

Formaður fjallar einnig um reiðleiðir hjá félaginu og að þeim fari fækkandi. Það er vilji stjórnar að fá þessu breytt. Formaður fjallar meðal annars um framkvæmdir á byggingu nýrrar reiðhallar, stjórnin ákvað að setja á koppinn nefnd sem á að skila um niðurstöðum hvaða reiðgólf sé best í reiðhöllina. Nefndin er skipuð þeim Atla Guðmundssyni, Olil Amble og Þórarni Eymundssyni, þau eiga að skila inn skýrslu með upplýsingum hvaða gólf hafi verið að koma best út og leggja fram tillögu.

Ráðinn var inn nýr starfsmaður hjá félaginu hann Svafar Magnússon sem hefur staðið sig vel.

Formaður fjallar um félagsandan í félaginu. Allir sem vinna fyrir félagið hvort sem það eru starfsmenn eða sjálfboðaliðar eru alltaf að reyna gera sitt besta. Um leið og góður félagsandi hverfur hættir fólk að nenna að leggja sitt að mörkum fyrir félagið og verður þá ekkert úr starfinu.

Formaður þakkar fyrir sig og við tekur framkvæmdarstjóri Sörla hún Sigríður Kristín Hafþórsdóttir. Didda fer betur yfir félagafjölda hjá félaginu.
yfirlit framkvæmdarstjóra, fyrir hönd stjórar Sörla er eftirfarandi: þakkar einnig framkvæmdarstjóra, stjórnarmönnum, nefndarfólki og sjálfboðaliðum fyrir vel unnin störf. Þá tók framkvæmdarstjóri nánar yfir verkefni, framkvæmdir og fleira á vegum félagsins.


Yfirlit framkvæmdarstjóri, fyrir hönd stjórnar Sörla er eftirfarandi:

Starfsárið hófst með venjulegum hætti okkar árlega nefndargrill til að þakka okkar frábæru sjálfboðaliðum og nefndarfundir svo til að leggja niður dröginn fyrir næsta vetur.

Félagshesthús, knapamerkjanámskeið og reiðmennskuæfingar byrjuðu í september og bætast námskeið við jafnt og þétt yfir veturinn. Pollanámskeið, helgarnámskeið, kvennatöltsæfingar, keppnisakademía og afrekshópur. Við erum gríðarlega ánægð með okkar öfluga starf og hvað við náum gríðarlegamikilli nýtingu á reiðgólfinu í reiðhöllinni, en okkur hlakkar líka rosalega mikið til að fá nýja reiðgólfið, það verður þvílík aðstöðubreyting hjá okkur, bæði  fyrir afreksfólkið okkar og almenna iðkendur hestaíþróttarinnar.

Árs og uppskeru hátíð í nóvember var tvískipt eins og undan farin ár barna og unglingahátíðin er á föstudegi og fullorðins á laugardegi, á þessum hátíðum var okkar fremsta íþróttafólki og fremstu ræktendum veittar viðurkenningar fyrir glæsilegan árangur. Í ár voru einnig veitt verðlaun fyrir glæsilegan árangur á Heimsmeistaramóti en það voru þau Þorvaldur H Kolbeins og Margrét V Vilhjálms fyrir frá Sandhóli og Önnu Kristínu Geirsdóttur fyrir Kötlu frá Hemlu. Það voru sex einstaklingar sem fengu gullmerki Sörla en það voru þau Valka Jónsdóttir, Darri Gunnarsson, Stefnir Guðmundsson, Eyjólfur Sigurðsson, Snorri Rafn Snorrason og Helgi Jón Harðarson.

Við fengum góða heimsókn í félagshesthús í desember þegar Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og fulltrúar frá mennta og lýðheilsusviði komu og undirritaður var samningur á milli Hafnarfjarðar og Hestamannafélagsins Sörla um umsjón og rekstur á íþróttasvæði og húsnæði félagsins. Atli Már formaður undirritaði fyrir hönd félagsins okkar.

Okkar árlegu sviðaveisla og skötuveisla voru að sjálfsögðu á Sörlastöðum, viðburðir sem okkar heldra og reyndra fólk vill ekki missa af.

Þorrablótið okkar var okkar fyrsti viðburður sem haldin var á 80 ára afmælis ári Sörla. Við buðum formönnum og framkvæmdastjórum nágrannahestamannafélaganna og Landsambandi Hestamannafélaga á blótið. Mældist það vel fyrir og alskyns líflegar umræður um sameiginlega viðburði á milli félaganna urðu til og vert að skoða það. Það verður t.d fundur í byrjun október þar sem á að ræða um sameiginleg fræðsluerindi og sýnikennslur í vetur hjá félögunum.

Nú í ársbyrjun var í fyrsta sinn í sögufélagsins sem  félagafjöldinn er kominn yfir eitt þúsund félaga. Félagið okkar hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum og hefur innra staf þess margfaldast.

Hestamannafélagið Sörli varð 80 ára 7. febrúar en það var stofnað árið 1944. Lávarðadeild Sörla gaf félaginu gjöf af tilefni merkisafmælis Sörla. Það var afmælismerki/logi félagsins og var það hannað af þeim feðgum Degi og Hilmari Sig. grafískum hönnuðum. En þótti þeim rík ástaða til að vekja athygli félagsmanna og annara á þessum merku tímamótum í sögu Sörla. Lávarðadeildin hefur einnig fært félaginu að gjöf nýtt ræðupúlt og fánastand fyrir félagsfána okkar.

Við buðum í hefðbundið afmæliskaffi á sjálfan afmælisdaginn. Buðum öllum okkar félagsmönnum, bæjarstjóra og bæjarstjórn uppá kökur og brauðtertur. Síðan upp á sýningu í reiðhöllinni þar sem krakkar  á hinum ýmsu stigum hestamennskunnar sýndu listir sýnar.

Í lok febrúar var Svafar Magnússon ráðinn í 50% starf hjá félaginu. Hann er yfirumsjónarmaður félagshúss, sér um viðhald þar og á eigum félagsins og önnur tilfallandi verkefni.

Afreksstefna Hestamannafélagsins Sörla – yngri flokka var kynnt í lok febrúar og erum við fyrsta hestamannafélagið til að taka upp slíka stefnu. Við náðum aðeins að byrja síðastliðið vor, hefðum viljað gera betur en náðum þó að reiðtímum og æfingamóti og í vetur ætlum við að gera mun betur fyrir afrekskrakkana okkar.

Skírdagshappdrættið er enn aftur okkar stærsta fjáröflun og félaginu gríðarlega mikilvægt –  auðvitað mikil vinna bæði að afla vinninga og svo að selja miðana, við brugðum á það ráð í ár að fá allar nefndir til að aðstoða okkur við að útvega vinninga og gekk það ljómandi vel.

Dagur íslenska hestsins var haldin hátíðlegur hjá okkur í Sörla 1. maí, en dagurinn er haldinn hátíðlegur í yfir 30 löndum ár hvert. Við vorum með fjölskylduskemmtun við Sörlastaði, Æskulýðsnefnd var með sýningu á Sörlastöðum og teymt var undir börnum í hvítagerðinu. Við buðum upp á grillaðar pylsur  og drykki. Margir komu og heimsóttu okkur  og dagurinn var virkilega góður.

Darri Gunnarson Sörlafélagi kom að máli við stjórn í ársbyrjun, en hann vildi kaupa og gefa félaginu startbása en oft hefur skapast umræða um nauðsyn þess að eiga slíkt fyrir skeiðknapana okkar til að æfa sig. Básarnir komu svo til landsins í byrjun maí en voru ekki settir út á braut fyrr en úrtöku fyrir landsmót lauk.

Við áttum verðugan fulltrúa í U-21 landsliðinu í hestaíþróttum hana Fanndísi Helgadóttur.

Okkar keppnisfólk er ávallt duglegt að taka þátt í hinum mörgu deildum sem eru í boði. Fyrsta deildin hóf göngu sína á árinu og það er óhætt að segja að hún hafi ruðst inn á sviðið með látum, góðri keppni og mikilli athygli útávið. Lið Sportfáka sem er að uppistöðu til Hafnfirskt með Snorra Dal, Önnu Björk og Ingiberg innan sinna raða, ásamt því að vera að sjálfsögðu hafnfirskt fyrirtæki gerði sér lítið fyrir og sigraði deildina að þessu sinni sem er sannarlega frábær árangur. Einnig er okkar keppnisfólk duglegt að sækja hin ýmsu opnu mót víðsvegar um landið, stendur sig vel og er félaginu til sóma.

Keppnisfólkið okkar hefur staðið sig vel á árinu. Ljómandi góðar skráningar voru á mótunum okkar í ár, miðað við erfiðar aðstæður við mótsvæðið okkar vegna framkvæmda við nýja reiðhöll. Um tíma héldum við að við gætum ekki haldið mótin okkar vegna framkvæmda á svæðinu. Og vorum við búin að tala við Sprett og Fák um að halda Hafnarfjarðarmeistaramótið og úrtöku og Gæðingamót hjá þeim. En að endingu þá voru mótin haldin hjá okkur. Áfram sjáum við sýnilegan árangur í fjölgun í barna og unglingaflokki eftir að við tókum upp flokkinn minna vanir til að gefa þeim tækifær sem eru að stíga sín allra fyrstu spor í hestaíþróttinni. Reglubundnar æfingar og hvatning kennaranna hefur líka sitt að segja með aukið sjálfstraust þessara ungu keppenda. En engar kynbótasýningar voru haldnar í ár, en við stefnum á að halda þær næsta vor, vonandi tekst það.

Í tilefni af 80 ára afmæli félagsins ákvað stjórn félagsins að fá listamanninn og vöruhönnuðinn Ríkeyju Magnúsdóttur Ringsted til að hanna verðlaunagrip fyrir bæði Hafnarfjarðarmeistaramótið og Gæðingamót og úrtöku. Útkoman var glæsilegur útskorinn prjónandi hestur sem var límdur í stein. Voru allir hæst ánægðir með gripinn og einhverjir höfðu orð á því að vonandi væru þessi verðlaun komin til að vera.

Ákveðið var í febrúar að fara í samstarf við Rúnar Hrímni og panta hjá honum nýja félagsjakka – keppnisjakka. Fannst stjórn það tilhlýðilegt á 80 ára afmæli félagsins og á landsmótsári, en það hefur staðið til í nokkurn tíma. Hefuðum við viljað sjá meiri áhuga hjá okkar keppnisfólk fyrir því að kaupa sér merkta Sörlakeppnisjakka. Einnig var öllum félagsmönnum boðið að kaupa Heklujakka – Landsmótsjakka og annan Hrímnisfatnað. Mjög margir sem voru á landsmóti keyptu sér merktan jakka og mættu í honum í brekkuna að hvetja sitt Sörlafólk. Mjög gaman var að sjá liðsheildina og stemninguna sem skapaðist í blíðunni á úrslitahelginni á Landsmótinu í Víðidal.

Við áttum 9 fulltrúa í hverjum flokki á landsmóti, 45 fulltrúa í landsmótsgreinunum en svo voru líka keppendur frá okkur í íþróttagreinunum. Við áttum fulltrúa í A-úrslitum í 3 flokkum af þeim fimm sem í boði eru á landsmóti. í barnaflokki voru Una Björt Valgarðsdóttir og Agla urðu þær í 6. sæti með einkunnina 8,56 eftir að hafa unnið B-úrslitin. Snæfríður Ásta Jónsdóttir og Liljar gerðu góða sýningu og lönduðu 7. sæti með einkunnina 8,67 og í A flokki gæðinga var Goði frá Bjarnarhöfn og Siggi Matt en þeir enduðu í 6.-7. sæti með eikunnina 8,74. Í skeiðgreinunum náðu Ylfa Guðrún Svafarsdóttir og Straumur frábærum árangri í 100 m skeiði en þau urðu í 4. sæti og Ingibergur og Sólveig bestum árangri í 100m skeiði og 250m skeiði en þau urðu í 6. sæti í báðum greinum.

Sameiginlegt landsmótsgrill var á föstudeginum en þá bíður Sörli félagsmönnum sínum á landsmóti í grill. Við fegnum lánað hesthúsið hjá Friffa og Önnu inní Víðidal og rúmlega 100 Sörlafélagar komu og gæddu sér á grilluðu kjöti og meðlæti og áttu góða stund saman í blíðskapar veðri.

Íslandsmót barna og unglinga var haldið í Herði í ár þar eignuðumst við tvöfaldan íslandsmeistara hana Fanndísi Helgadóttur en hún varð Íslandsmeistari í Fimmgangi F2 unglinga á Sprota með einkuninna 6,88 og á Ötli í Tölti T4 með einkuninna 7,13.

Íslandsmót ungmenna og fullorðinna var í Fáki, við áttum einungis 5 keppendur þar, en til að öðlast keppnisrétt á Íslandsmóti þurfa keppendur að ná í lágmarkseinkunn í hverri grein. Okkar keppendum gekk einna best í fimmgangi og skeiði. En bestum árangri náði Ingibergur Árnason og Sólveig í 100m flugskeiði  P2 á 7,33. Og Sara Dís Snorradóttir var eini keppandinn í ungmennaflokki keppti hún í 6 greinum og bestum árangri náði hún í 100m flugsskeiði P2 á Djarfi en þau lönduðu 7. sæti

Þrjár Sörlastúlkur þær Bjarndís Rut, Erla Rán og Steinunn Anna þátt í FEIF Youth Cup. Mótið var haldið í Sviss að þessu sinni og voru sex þátttakendur frá Íslandi. Formaður æskulýðsnefndar LH Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir Sörlakona var fararstjóri hópsins. Bjarndís Rut og Gormur frá Herríðarhóli stóð sig gríðarlega vel og unnu til þrennra gullverðlauna. Þau unnu tölt T2 og fjórgang V2 og einnig vann hún fetherprice verðlaunin sem eru veitt fyrir prúða og góða reiðmennsku innan sem utan vallar. Erlu Rán og Stormi frá Runnum gekk einnig mjög vel en þau voru í 1-2. sæti í tölti T7 og í 1. sæti í fjórgangi V5.

Óskum við okkar keppnisfólki innilega til hamingju með árangur ársins.

Einnig áttum við fimm þátttakendur í hæfileikamótun LH, en þar þurfa þátttakendur að skila inn umsóknum og valið er í þann hóp. Það voru þær Fanndís Helgadóttir, Kolbrún Sif Sindradóttir, Snæfríður Ásta Jónsdóttir, Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir og Árný Sara Hinriksdóttir

Sjötta starfsár félagshúss hófst síðastliðið haust. Þar er alltaf líf og fjör og fullt af börnum sem ýmist taka þátt í starfinu með lánshestum eða þau sem leigjapláss og eru með eigin hross og það er virkilega gaman að sjá hvað þau eru farin að kynnast krökkum í hverfinu. Því við viljum að öll börnin kynnist og ríði út saman, sæki æfingar og geri eitthvað skemmtilegt saman. Þarna er aðal nýliðunarstarf félagsins. Núna á haustdögum hefur verið unnið að ýmsu viðhaldi í húsinu, keypt eftirlitsmyndavélakerfi og verið er að fara að setja upp hitablásara.

Nokkrum sinnum hefur verið fundað og nokkrir tölvupóstar hafa verið sendir á umhverfis og skipulagssvið bæjarins vegna ýmissa atriða t.d  ístölts á Hvaleyravatni, kerrustæða, breytinga á akstursleiðum í efra hverfi, breytinga á brautarenda og lokunum reiðleiða. Við erum búin að bjóða Valdimari Víðisyni tilvonandi bæjarstjóra heimsókn og bjóða honum í bíltúr og lýsa fyrir honum áhyggjum okkar á því að sífellt er þrengt að okkur og okkar reiðleiðum, því okkur finnst ekki fara saman hljóð og mynd þar sem bærinn stendur í stórframkvæmdum hér á svæðinu og búumst við við frekari fjögun á svæðinu þegar ný reiðhöll verður klár og þegar vextir lækka og lóðir fara að seljast.

Hinrik Þór Sigurðson sagði upp yfirþjálfara stöðu sinni eftir landsmót. Þökkum við honum kærlega fyrir samstarfið og fyrir hans gríðarlega áhuga á uppbyggingunni á okkar íþrótta starfi. Þróunina á reiðmennskuæfingum, keppnisakademíu og innleiðingu á Afreksstefnu Sörla yngri flokka. Staða yfirþjálfara var auglýst og ráðin var sem nýr yfirþjálfari Ásta Kara Sveinsdóttir,  hún er uppalin í Sörla og hefur stundað sína hestamennsku hér, kennt og þjálfað frá því hún útskrifaðist frá Hólum og flestir vita hver Ásta Kara er. Við hlökkum til samstarfsins með henni.

Miklar framkvæmdir eru á félagsvæðinu okkar, verið er að reisa nýja reiðhöll eins og allir vita, Landsnet vinnur við breytingar á Hamraneslínu, en verið er að færa hluta af línunum í jörð og búa til strengendavirki við Kaldárselsvegi og nú eru einnig þvílíkar framkvæmdir í Gráhelluskógi, en verið er að breyta legu reiðvegarins, gera göngubrú og nýtt bílastæði til að aðskilja ríðandi og gangandi umferð. Og til að toppa framkvæmdirnar þá réðst félagið í að setja upp nýtt gerði sem á að taka við af hvítagerðinu þar sem það fer undir bílastæði þegar nýja höllin verður tekin í notkun.

Allar þessar framkvæmdir hafa vissulega verið áskorun fyrir okkar fólk og þá sérstaklega tamningafólkið okkar sem notar yfirleitt haustin í frumtamningar.

Mjög öflugt nefndarstarf var síðast liðið ár og ég þreytist seint á að minna á að til að halda úti jafn öflugu og góðu starfi eins og við höfum gert undan farið ár þá þurfum við öfluga sjálfboðaliða, nefndar- og stjórnarfólk, sem vinnur í þágu félagsins ótrúleg starf og auðvitað eru ekki síður mikilvægir okkar frábæru styrktaraðilar sem styrkja okkur á margvíslegan hátt, flestir ár eftir ár.

Þessu fólki vil ég þakka kærlega fyrir samstarfið síðastliðið ár.

Sigríður Kr Hafþórsdóttir.
framkvæmdastjóri Sörla

4.       Gjaldkeri leggur fram og skýrir árshluta uppgjör félagsins. Rekstrartekjur í hálfsársuppgjöri voru rúmlega 57,6 millj. kr. Rekstrargjöld voru tæpar 50 milljónir. Vaxtatekjur hafa aukist um 700 þúsund kr sem eru að mestu vegna betri ávöxtunar sparifjárs. Hagnaður á fyrstu 6 mánuðum ársins eru því tæpar 8,8 milljónir króna. Tekjurnar hafa hækkað á milli tímabila en einnig gjöldin. Kemur það til af því að kjarasamningsbundin hækkun kom á laun framkvæmdastjóra, nýr starfsmaður var ráðinn í hálft starf og verktakalaun jukust í takti við meiri starfsemi í formi námskeiða. Töluverður kostnaður fellur að auki til á Landsmótsári.

Fastafjármunir eru rúmleag 148,6 milljónir, veltufjármunir eru tæplega 62,5 milljónir og eignir samtals eru því rúmlega 211 milljónir.

Eigið fé félagsins er rúmlega 208,5 milljónir og skammtímaskuldir tæpar 2,5 milljónir sem eru eingöngu reikningar sem ekki voru komnir á eindaga. Skuldir og eigið fé var því 30/6/2024 samtals rúmlega 211 milljónir kr.

5.       Umræður um liði 3 og 4 og atkvæðagreiðsla um reikninga félagsins. Spurning kom frá félagsmanni um hvernig gengi að rukka félagsgjöld, það gengur vel. Einnig nefndi félagsmaður hversu gaman væri að sjá nýliðunina sem er í félaginu, sem er mikið tilkomin vegna félagshúss. Formaður þakkar gjaldkera og framkvæmdarstjóra hversu vakandi þær eru og duglegar í fjáröflun fyrir félagið.

6.       Formenn nefnda leggja fram og skýra skýrslur um starf viðkomandi nefnda á liðnu ári, framkvæmdarstjóri las upp skýrslur þeirra nefnda sem formenn voru ekki mættir.

  •   Skýrsla æskulýðsnefndar

  •   Skýrsla ferðanefndar

  •   Skýrsla fræðslunefndar

  •   Skýrsla Krýsuvíkurnefndar

  •   Skýrsla kvennadeildar

  •   Skýrsla kynbótanefndar

  •   Skýrsla laganefndar

  •   Skýrsla lávarðadeildar

  •   Skýrsla móta- og vallanefndar

  •   Skýrsla reiðveganefndar

  •   Skýrsla skemmti- og fjáröflunarnefndar

7.       Kosning formanns. Atli Már Ingólfsson sitjandi formaður gefur kost á sér áfram. Engin mótframboð hafa borist. Allir fundargestir greiða atkvæði með handauppréttingu og er sitjandi formaður kosinn formaður til eins árs.

8.       Kjörtímabili þeirra Kristínar Þorgeirsdóttur, Kristjáni Jónssyni og Sveini Heiðari Jóhannessyni er að ljúka. Þau gefa öll kost á sér til áframhaldandi setu og fá einróma lófaklapp fyrir og eru því kosinn áfram til stjórnarsetu.

9.       Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara: Tillaga er um að Valka Jónsdóttir og Ísak Gunnarsson gefa kost á sér sem fundarmenn samþykkja. Þá var kosin til vara Halldóra Einarsdóttir.

10.       Kosning í nefndir, deildir og ráð. Formenn eru kosnir sérstaklega. Í lávarðardeild er ekki kosið, sbr. 18. gr.

Formenn nefnda.
Ferðanefnd - Jón Harðarson
Krýsuvíkurnefnd - Pétur Ingi Pétursson
Kvennadeild - Þórdís Anna Oddsdóttir
Kynbótanefnd - Snorri Rafn Snorrason
Laganefnd - Arnór Snæbjörnsson
Móta- og vallanefnd - Valka Jónsdóttir
Reiðveganefnd - Guðríður Eldey Arnardóttir
Skemmti- og fjáröflunarnefnd - Margrét Ásta Jónsdóttir
Sörlastaðanefnd - Pálmi Þór Hannesson
Viðrunarhólfanefnd - Ólafur Ólafsson
Véla- og tækjadeild - Kristján Jónsson

Klappað er fyrir sjálfboðaliðum félagsins og starfi þeirra.

11.       Tillaga lögð fram til samþykktar um árgjald næsta árs.

Tillaga um óbreytt árgjald kemur frá stjórn. Hinsvegar komu tillögur frá fundargestum um hækkarnir, til að fylgja verðbólgu. Tillaga kemur frá félagsmanni að hækka félagsgjöld í 19 þúsund á ári,  sem er samþykkt með tveimur mótatkvæðum. Hækkunin er rædd á málefnalegum nótum, bæði kostir og gallar. Félagsgjald fyrir næsta ár verður því kr. 19.000.

12.       Önnur mál

Félagsmaður kemur með tillögu um skilti þar sem stendur – Þú ert komin á félagssvæði Sörla - ert þú félagi eða skilti/límmiða til að setja á hurðina á húsinu eða í bílinn Ég er félagsmaður Sörla. Til að fólk geti sýnt fram á að það hafi borgað sín félagsgjöld.

Félagsmaður kemur með tillögu um að skipuð verði umhverfisnefnd til að halda hreinu í kringum hesthúsin á svæðinu. Framkvæmdarstjóri nefnir að það sé húsfélag í Hlíðarþúfum en ekkert í efri byggð. Umgengnin í kringum hesthúsin er verulega ábótavant og sérstaklega í efri byggð. Fólk þarf aðeins að átta sig á því það þarf að bera virðingu fyrir náunganum og hugsa um umhverfið í kringum sín hesthús. Nefnt var eitt ákveðið fyrirtæki þar sem mikil umferð er á staðnum en ekki beint mikið um bílastæði að fólk leggi útá götu. Einnig er mikið drasl í kringum fyrirtækið og hland að leka úr gerði og gámum með taði og út á götu.

Margir að taka of mikið hey upp að húsunum sínum og ónýtar rúllur eru ekki fjarlægðar. Fundur ályktar að fela stjórn Sörla að taka fyrir umgengni á félagssvæðinu, umhverfi hesthúsa og leiðbeina félagsmönnum um nauðsynlegar úrbætur þannig að sómi verði að.

Tillaga frá félagsmanni að vera með betra aðgengi að merktum fatnaði merktu félaginu. Hafa það örlítið aðgengilegra fyrir félagsmenn.

Yfirþjálfari Sörla tekur við orðinu og fer yfir komandi vetur. Margt spennandi í boði og er starfið nú þegar hafið meðal annars á knapamerki 2,3 og 4. Þá hefjast æfingar hjá yngri flokkum í reiðmennskuæfingum næstkomandi mánudag. Einnig stendur yfir frumtamninganámskeið sem er vel sótt. Yfirþjálfari er spenntur fyrir komandi vetri.

Fundarstjóri hrósar stjórn og framkvæmdarstjóra og óskar þeim til hamingju með áframhaldandi stjórnarsetu.

Formaður tekur við orðinu – Atli þakkar Darra fyrir fundarstjórnina og þakkar stjórn fyrir starfið á árinu og hlakkar til að starfa með þeim öllum á næsta ári. Fram kemur að mikil tilhlökkun er vegna opnunar nýrrar reiðhallar sem mun þrefalda það gólfsvæði sem félagsmenn geta nýtt til þjálfunar inni, auk alls annars sem höllinni mun fylgja.

Formaður þakkar fyrir komina og hlakkar til komandi vetrar.

Fundi slitið kl 22:30