Aðalfundur 2022

Fundargerð 

Mættir eru 26 fundargestir, auk stjórnar, framkvæmdarstjóra og fundarstjóra.

1.       Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður setur fundinn og leggur til að Arnór Snæbjörnsson verði fundarstjóri og samþykkja mættir fundargestir það. Þá er lagt til að María Rúnarsdóttir verði fundarritari og er það samþykkt af fundargestum.

2. Formaður fer yfir skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári, m.a. yfir árangur Sörlafélaga á Landsmóti sumarið 2022, framkvæmdaráætlun byggingar nýrrar reiðhallar og fl. Þá tekur til máls framkvæmdarstjóri og fer yfir verkefni félagsins á árinu, svo sem nefndarstörf, námskeiðahald, starfsemi félagshússins og fl. Yfirlit formanns, fyrir hönd stjórnar Sörla er eftirfarandi:

„Kæru Sörlafélagar.

Í stjórn Hestamannafélagsins Sörla sitja nú eftirfarandi aðilar. María Júlía Rúnarsdóttir, ritari, Kristín Þorgeirsdóttir, gjaldkeri, Einar Ásgeirsson, varaformaður, Kristján Jónsson, stjórnarmaður, Sveinn Heiðar Jóhannesson, stjórnarmaður, Guðbjörg Ragnarsdóttir, stjórnarmaður, auk þess sem hér stendur.

Reglulegir fundir eru haldnir 1 sinni í mánuði og oftar ef þörf er á. Þá eru haldnir rafrænir fundir einnig.

Breyting á skýrslu stjórnar. Framkvæmdastjóri fer yfir helstu verkefni sem unnin voru í umboði stjórnar á síðasta starfsári, sem hluti af skýrslu stjórnar.

Landsmótið 2022

• Góður árangur og góð liðsheild. Gaman að vera Sörlamaður á landsmóti. Orð Magga Ben.

• Helstu verkefni stjórnarinnar á síðast ári.

• Fjárhagslegur stöðugleiki og innri vöxtur í krafti öflugs starfs félagsins. Ársreikningur

• Félagshesthús keypt.

• Drög að nýju skipulagi fyrir reiðleiðir um Gráhelluhraun verður mikil breyting.

• Reiðleið ofan við Sléttuhlíð á fyrstu metrunum.

Reiðhallarmál.

Gera grein fyrir stöðu þeirra. Tillögu framkvæmdanefndar um uppbyggingu á athafnasvæði Sörla

• Byrjað að grafa í apríl 2023. 380 mkr.

• 2024 600 mkr.

• 2025 350 mkr.

• Reiðgólfið tilbúið í janúar 2025.

• Staða Sörla í dag og framtíðin

• Sala hesthúsalóða og ný reiðhöll og félagshesthús

• Samþykki fyrir nýjum 60% starfsmanni í félagshesthúsi og greiðsla af hluta kostnaðar vegna félagshúss.

Knapaþjálfun og æfingar

Þakkir

Að lokum vill stjórn þakka framkvæmdastjóranum okkar, öllum nefndum og sjálfboðaliðum félagsins fyrir þeirra góðu störf og framlag á árinu til félagsstarfssins.“

3.       Framkvæmdarstjóri fer yfir upplýsingar um fjölda Sörlafélaga en þeim hefur fjölgað milli ára.

Enn fremur stiklaði framkvæmdarstjóri á stóru er varðar starfsemi félagsins á liðnu ári. Yfirlit framkvæmdarstjóra er eftirfarandi:

„Starfsárið hefst á nefndarfundum með flestum nefndum, þar förum við yfir mikilvægi hverrar nefndar og förum yfir starfslýsingu og leggjum drög að dagskrá hverrar nefndar. Ég og nefndirnar ráða svo ráðum okkar um starfið allt starfsárið og ef eitthvað sérstakt þá ber ég það undir stjórn

Ég reyni svo eftir bestu getu að halda utan um og reyna að láta allt okkar starf ganga upp í tímaröð því við erum með mjög þétta dagskrá frá september byrjun til  c.a. 20 júní  og svo auðvitað kynbótasýningar og gæðingaveislu í ágúst þannig að starfið er nánast orðið allt árið um kring því ágúst mánuður fer í nauðsynlegt viðhald bæði á Sörlastöðum og í félagshúsi.

Ég ætla að fara hér aðeins yfir það helsta:

Félagshús. Okkar fjórða starfsár í félagshúsi hófst síðastliðið haust, í húsi Íshesta við Sörlaskeið 24, þar er virkilega góð aðstaða fyrir starfsemina, hátt til lofts og vítt til veggja sem er nauðsynlegt þar sem margir eru og litla reiðaðastaðan og nálægðin við hvíta gerðið er starfinu nauðsynlegt. Við leigum hesta af Íshestum í starfsemina og kaupum aðföng fyrir húsið af Íshestum. Um áramót keypti félagið svo húsnæðið í samráði við Hafnarfjarðarbæ, en bærinn keypti það svo fljótlega á nýju ári. Ákveðið var síðastliðið haust þegar nýir aðilar komu að hönnun reiðhallarinnar að taka félagshússhlutann út úr höllinni, því var húsnæðið keypt þegar það gafst og erum við sannfærð um að þessi kaup hafi verið mikið gæfuspor fyrir félagið og ekki síður alla þá krakka sem nú gefst kostur á að stunda hestamennsku án þess að eiga bakland í sportinu. Starfsemi félagshúss hefur nú þegar sannað sig því við vitum af fullt af börnum sem eru komin úr félagshúsi út í hverfið og jafnvel fjölskyldur þeirra komnar líka í sportið.

Námskeið/æfingar. Við náðum að halda ótrúlegan fjölda námskeiða á síðasta starfsári, en öll okkar námskeið eru skipulögð í samráði við yfirþjálfara félagsins, fræðslunefnd og reiðkennarana. Við vorum með reiðmennskuæfingar, knapamerki, frumtamninganámskeið, pollanámskeið, keppnisakademía, nokkur almenn reiðnámskeið og kvennatöltæfingar, öll námskeið fylltust um leið og þau voru auglýst, kennt var á Sörlastöðum og einstaklings námskeið í litlu reiðhöllinni í félagshúsinu, einhvern vegin náðum við að púsla þessu öllu saman í okkar litla húsakosti, náðum að færa dálíðið út undir vorið, en ekkert var hægt að nýta velli né braut framan af því annaðhvort var allt fullt af snjó eða gríðarlegt vatn yfir öllu.

Nefndargrill. Við héldum nefndarfgrill í október og þar var öllu nefndarfólki og sjálfboðaliðum boðið. Kvöldið var virkilega skemmtilegt og allir komnir í þörf fyrir að hittast og spjalla og skipuleggja næsta stafsár og fara yfir það sem var liðið.

Sviðaveisla. Það er alltaf gaman að vera með einhverjar nýjungar á hverju starfsári, á fyrsta vetrardag þá vorum við með Sviðaveislu á Sörlastöðum, Stebba sá að sjálfsögðu um veisluna eins og henni eini er lagið og tókst vel til.

Árs og uppskeruhátíð. Var haldin í nóvember, þar voru líka veitt árangursverðlaun bæði fyrir árangur í keppni og í ræktun. Virkilega skemmtileg hefð er að skapast hjá okkur því á föstudeginum fyrir fullorðins hátíðina þá er barna og unglingaárshátíð, stjórn og framkvæmdastjóri sjá um þann viðburð og ekki minna lagt í en hjá fullorðna fólkinu, flottur matur, verðlaun veitt, fáum einhvern flottan tónlistamann til að koma, síðast kom Aron Kan og svo er ball í lokinn.

52. Landsþing íBH. Var haldið  síðastliðið haust, þar áttum við fulltrúa sem sátu þingið og voru þar líflegar umræður að vanda. Einnig voru þær Friðdóra Friðriksdóttir, Auður Ásbjörnsdóttir og Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir heiðraðar fyrri vel unnin störf í þágu félagsins.

Skötuveislan. Var haldin en með öðru sniði en venjulega en við þurfum að takmarka fjöldann við 50 manns og salurinn var tvísetinn, það kom ekki að sök því skatan var góð.

Landsliðið. Við áttum verðuga fulltrúa í landsliðunum í hestaíþróttum, Kötlu Sif Snorradóttur og Hönnu Rún Ingibergsdóttur.

Deildirnar. Það voru keppendur frá félaginu í flestum deildunum, í Meistaradeild Líflands og æskunnar, Meistaradeild Ungmenna, Vesturlandsdeildin, Blue Lagoon deildinnni og einnig var okkar fólk duglegt  að sækja opin mót hjá öðrum hestamannafélögum og stóð sig mjög vel og með miklum sóma. Einnig áttum nokkra við þátttakendur í hæfileikamótun LH, en þar þurfa þátttakendur að skila inn umsóknum og valið er í þann hóp.

Stígatengingar í Gráhelluhrauni. Það er loksins lausn í sjónmáli þar því að starfshópur um stíga í upplandi Hafnarfjarðar vann vel og tók tillit til óska okkar og í nýju deiliskipulagi þá á að gera göngubrýr og bílastæði beggja vegna við skóginn í Gráhelluhrauni til að aðskilja ríðandi og gangandi/hjólandi umferð, vonandi verður farið í þessa framkvæmt sem fyrst, því það er alveg galið að við þurfum að búa við það að göngustígurinn endi rétt fyrir aftan keppnissvæðið okkar og við séum að fá gangandi og hjólandi vegfarendur inn á keppnisvelli og skeiðbraut nánast á hverju móti sem að við höldum.

Gámar fyrir plast. Eru komir til okkar og eru við reiðhöllina, þeir eru einungis fyrir rúlluplast og plast utan af spæni. Þeir eru opnir reglulega á áður auglýstum opnunartímum. Við söfnum saman plasti úr húsunum okkar og síðan er plastið flutt í Hveragerði og endurunnið hjá Pure North Recycling.

Hrossatað. Við erum komin með leyfi til að losa hrossatað í viðrunarhólfið á Bleiksteinshálsi. Síðastliðin ár hafa húseigendur í efra hverfinu verið í vandræðum með að losna við skít úr húsum sínum. Við þurfum að passa sérstaklega vel að ganga vel um og dreifa skítnum nánast um leið og hann er losaður, en hann nýtist að sjálfsögðu vel til uppgræðslu. En það er einnig vatnsleysi sem hefur tafið að hólfið sé komið í notkun, en lausn á því er í sjónmáli, þannig að hólfið ætti að fara að nýtast til beitar.

Skírdagshappdrættið. Happdrættið er okkar stærsta fjáröflun – félaginu gríðarlega mikilvægt –  auðvitað mikil vinna bæði að afla vinninga og svo að selja miðana, því er það nauðsynlegt fyrir okkur að fá góðar móttökur hjá félagsmönnum og velunnurum félagsins, að þeir séu til í að freista gæfunnar og kaupa miða, þó ekki til annars en að styrkja félagið.

Peysur fyrir krakkana. Við keyptum peysur og merktum og gáfum öllum krökkum sem höfðu stundað hestamennsku í félagshúsi eða á reiðmennskuæfingum allan síðastliðinn vetur, einnig bauðst öllum öðrum börnum félagsins að kaupa sér merkta peysu.

Úlpur og jakkar. Við seldum merktar vetrarúlpur og léttari jakka til félagsmanna, okkur er mikið í mun að merkja sem flesta, svo félagsmenn okkar séu sýnilegir alls staðar þar sem hestamenn koma saman.

Landsmót. Félagið átti rétt á að senda 8 hesta í hverjum flokki samtals 40 hesta + vara hesta á landsmót. Úrtakan fór fram á Gæðingamóti félagsins. Mikill hugur í keppendum og við höfum sjaldan verið með eins flottan og sterkan landsmótshóp eins og í ár. Boðið var upp á æfingar fram að landsmóti og  yfirþjálfari félagsins fylgdi öllum yngri keppendum sem þess óskuðu á mótið. Einnig fengu þau merktar úlpur og aðrir landsmótsfarar og aðstandendur gátu einnig keypt sér merktar Landsmótsúlpur. Keppendum okkar gekk mjög vel á mótinu og áttum við fulltrúa annað hvort í A eða B úrslitum í öllum aldursflokkum í gæðingakeppninni  og stuðningsliðið stóð sig einnig vel í brekkunni og hvatti okkar fólk til dáða. Sameiginlegt grill var í boði fyrir alla Sörlafélaga á landsmótinu, tókst það gríðarlega vel og mættu 70-80 manns í blíðskaparveðri og naut stundarinnar saman.

Íslandsmeistari, við eignuðumst einn íslandsmeistara í sumar það var Sara Dís Snorradóttir hún var samanlagður sigurvegari í unglingaflokki.

Norðurlandamót í hestaíþróttum 2022 fór fram á Álandseyjum en þar keppti landsliðsfulltrúi okkar Hanna Rún Ingibergsdóttir og varð í 7. sæti í A úrslitum í B-flokk.

Skógræktarreitur. Við stóðum fyrir nafnasamkeppni, stjórn félagsins valdi úr innsendum tillögum nafnið Sörlalundur, vinningshafinn er Guðrún Björg Gunnarsdóttir fékk hún vegleg verðlaun, stefnt er að vígja lundinn nú í október og gróðursetja í honum fyrstu tréin.

Reiðskólar Við vorum í samvinnu við Íshesta og Fákar og fjör – ævintýranámskeið á Álftanesi voru í sumar eins og síðastliðin ár. Gekk mjög vel og aðsóknin mikil og flest öll námskeiðin full á báðum stöðum.

Viðhald á svæðinu og bætt aðstaða. Síðastliðið haust bættum við lýsinguna við hvítagerðið og hringgerðið og settum einnig meira efni í þau, félagsmenn verða að geta nýtt gerðin betur yfir vetrartíman út af aðstöðuleysinu í reiðhöllinni. Félagið keypti einnig ný æfingatól frá Hestvænt, brokkspýrur og ýmsar hækkanir,  sem eiga eftir að auka fjölbreytni og vera frábær viðbót í okkar metnaðarfullastarfi starfi á námskeiðum og í æfingum.

Það hefur lengi verið áhugi fyrir því að koma upp trekk braut, strax á nýju ári fór Æskulýðsnefnd í það verk og fékk einnig hjálp áhugasamra aðstoðarmanna við að koma upp nokkrum þrautum inni í æfingavellinum, þessar þrautir hafa nýst vel og aukið fjölbreytnina á svæðinu og þá kannski aðalega fyrir ungu kynslóðina, félagshús o.fl. nýta hana mjög mikið.

Félagshús var þrifið hátt og látt og farið í ýmsa viðhaldsvinnu, hurðar og hlið yfirfarin, gerðin úti voru löguð og við endurnýjuðum nokkur milli gerði, þau sem voru verst farin, settum plast í staðin fyrir eikina, en þau verða endurnýjuð áfram eftir þörfum.

Skipt var út ljósum í reiðhöllinni nú í byrjun september, gamlir flúrlampar teknir niður og sett nýir LEDlampar settir í staðinn, lýsingin er stillanleg, hægt að hafa minni lýsingu almennt í reiðsalnum, en á viðburðum og kynbótasýningum er hægt að auka hana, töluverður sparnaður getur verið í því. Hafnarfjarðarbær greiddi fyrir efnið en félagið fyrir vinnuna, þetta var verk upp á tæpar 3 milljónir. Gaflarar rafverktakar sáu um framkvæmdina og fyrirtækið Tæki.is lánuðu okkur lyftu á meðan á framkvæmdum stóð.

Heppin. Ég verð að segja að við í Sörla vorum ótrúlega heppin á síðasta starfsári því við gátum haldið flesta okkar föstu viðburði þrátt fyrir endalausar sveiflur og mismunandi covid takmarkanir. Allt almennt starf hjá nefndunum okkar gekk vel og hægt að halda öll mót og alla viðburði nefnda með hliðrunum út af veðri nú eða covid takmörkunum. Ég held að við getum öll verið samála um að það hafi verið sérstaklega ánægjulegt að hafa getið boðið félagsmönnum úr nágrannafélögum okkar heim á Skírdag í ár, en síðastliðin tvö ár hefur það ekki verið hægt.

Sjálfboðaliðar og styrktaraðilar. En til þess að hægt sé að halda úti svona öflugu starfi þá þarf félagið að hafa góða sjálfboðaliða sem starfa með öflugu nefndar – og stjórnarfólki, en það fólk vinnur í þágu félagsins gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf. Einnig eru ekki síður mikilvægir allir okkar styrktaraðilar sem að styrkja starfið okkar, ýmist með peningastyrkjum, gjöfum og á ýmsan annan hátt,  í happdrætti, í  sjálboðaliðaveltu og síðast en ekki síst í öllu mótahaldi.

Þessu fólki vil ég þakka kærlega fyrir samstarfið síðastliðið ár.“

 

4.       Gjaldkeri leggur fram og skýrir árshluta uppgjör félagsins. Hagnaður félagsins hefur aukist milli ára sem skýrist fyrst of fremst af auknum umsvifum félagsins. Fyrir liggur þó að félagið hefur skuldbundið sig til frekari útgjalda á komandi misserum.

5.       Umræður um liði 3 og 4 og atkvæðagreiðsla um reikninga félagsins.

Sigurður Ævarsson spyr um eignarhald á félagshúsinu og upplýsir gjaldkeri að eignarhaldið er í höndum Hafnarfjarðarbæjar.

Helgi Jón Harðarson varpar fram spurningu um hvað felst í orðum formanns um að Hafnarfjarðarbær hafi samþykkt byggingu reiðhallar. Formaður fer yfir að Hafnarfjarðarbær hafi samþykkt verkefnið með skilyrðum um ákveðinn fjárhagslegan ramma. Þá hafi verkefnið verið boðið út og tilboð sem kom í verkefnið hafi verið hærri en áætlaður kostnaður. Framkvæmdarnefnd hafi unnið að því að lækka kostnaðinn og liggi nú fyrir framkvæmdaráætlun sem leggja á fyrir bæjarráð á næstu dögum.

Fundarstjóri leggur árshluta reikning til atkvæðagreiðslu fundargesta og eru þeir samþykktir án athugasemda af öllum mættu fundargestum.

6.       Formenn nefnda leggja fram og skýra skýrslur um starf viðkomandi nefnda á liðnu ári

  • Skýrsla ferðanefndar

  • Skýrsla fræðslunefndar

  • Skýrsla Krýsuvíkurnefndar

  • Skýrsla kvennadeildar

  • Skýrsla kynbótanefndar

  • Skýrsla laganefndar

  • Skýrsla lávarðadeildar

  • Skýrsla móta- og vallanefndar

  • Skýrsla reiðveganefndar

  • Skýrsla skemmti- og fjáröflunarnefndar

  • Skýrsla viðrunarhólfanefndar

7.       Kosning formanns. Atli Már Ingólfsson sitjandi formaður gefur kost á sér áfram. Engin mótframboð hafa borist. Allir fundargestir greiða atkvæði með handauppréttingu og er sitjandi formaður kosinn formaður til eins árs.

8.       Kosning þriggja í stjórn. Kjörtímabili þeirra Kristjáns Jónssonar, Einars Ásgeirssonar og Guðbjargar Ragnarsdóttir er nú að ljúka en þau gefa kost á sér áfram og fá þau stuðning fundargest til áframhaldandi stjórnarsetu.

9.       Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara: Sitjandi skoðunarmenn hlutu kosningu að nýju, þ.e. Ingvar Teitsson og Valka. Þá var kosin til vara Halldóra Einarsdóttir.

10.       Kosning í nefndir, deildir og ráð. Formenn eru kosnir sérstaklega. Í lávarðardeild er ekki kosið, sbr. 18. gr.

11.       Önnur mál

a)       Atli formaður ræddi varðandi stöðu sína varðand formennsku og sagði að hann mundi stíga til hliðar að loknu verkefni reiðhallar.

 

Ekki fleira gert og fundi slitið kl. 22:30.