Aðalfundur 2023

Fundargerð 

Mættir eru 20 fundargestir, auk fimm stjórnararmanna, framkvæmdarstjóra og fundarstjóra.

1.       Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður setur fundinn og leggur til að Arnór Snæbjörnsson verði fundarstjóri og samþykkja mættir fundargestir það. Þá er lagt til að María Rúnarsdóttir verði fundarritari og er það samþykkt af fundargestum.

2.       Framkvæmdarstjóri fer yfir upplýsingar um fjölda Sörlafélaga en þeim hefur fjölgað milli ára. Eru nú 995 talsins.

3.       Formaður fer yfir skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári. Formaður fjallar meðal annars um framkvæmdir við byggingu nýrrar reiðhallar og krefjandi áskoranir félagsmanna vegna þess. Formaður fer einnig stuttlega yfir afkomu félagsins og kveður hana vera góða. Formaður þakkar einnig framkvæmdarstjóra, stjórnarmönnum, nefndarfólki og sjálfboðaliðum fyrir vel unnin störf. Þá tók framkvæmdarstjóri nánar yfir verkefni, framkvæmdir og fleira á vegum félagsins.
Yfirlit framkvæmdarstjóri, fyrir hönd stjórnar Sörla er eftirfarandi:

Starfsárið hefst ávallt á nefndarfundum. Stjórn og framkvæmdastjóri hitta þá flestar nefndir, æskilegt er að nefndirnar séu búnar að hittast og skipta með sér verkum. Farið er yfirdagsetningar á föstum viðburðum. Við erum svo í samskiptum allt starfsárið og við stjórn ef þurfa þykir. Starfsárið gekk vel, nóg um að vera hjá flestum nefnum að skipuleggja allskyns viðburði, ístölt og ýmiss mót og námskeið fyrir alla aldurshópa, yfirfara keppnisvelli, snjómokstur og girðingavinna. Það eru nefnilega ófá handtökin hjá okkar frábæru sjálfboðaliðum sem starfa í þágu félagsins fyrir okkur félagsmennina og ég held því miður að félagsmenn geri sér ekki alltaf grein fyrir okkar mikla öfluga sjálfboðaliða starfi. Til að launa þessu frábæra fólki var haldið í október nefndar og sjálfboðaliða grill, en stjórn og framkvæmdastjóri sáu um framkvæmd viðburðarins. Allir skemmtu sér vel og fóru saddir og sælir heim.

Í lok nóvember var Árs- og uppskeruhátíð félagsins, hún er tvískipt, barna og unglingahátíðin er á föstudegi og fullorðins á laugardegi, á þessum hátíðum var okkar fremsta íþróttafólki og fremstu ræktendum veittar viðurkenningar fyrir glæsilegan árangur, það er of langt mál að telja þá alla upp en ég bendi á frétt á síðu heimsíðu félagins og gaman fyrir alla að rifja upp hverjir hlutu verðlaun þetta árið. Einnig voru veitt þrenn gullmerki fyrir vel unnin störf í þágu félagsins það voru Jón Ásmundsson, Margrét Ásta Jónsdóttir og Stefán Már Gunnlaugsson. Einnig var Sigurður Emil Ævarsson gerður að heiðursfélaga Sörla okkar óþreytandi Sörlamaður.

Í desember lauk áratuga baráttu Sörla þegar undirritaður var samningur á milli Hafnarfjarðarbæjar, Eyktar og Sörla um byggingu nýrrar reiðhallar fyrir Sörla. Framkvæmdir hófust í apríl og áætlað er að þeim ljúki árið 2025. Ný reiðhöll mun gjörbreyta öllu hjá félaginu okkar og eflaust líka mótahaldi innandyra á höfuðborgarsvæðinu. Örfáar lausar hesthúslóðir er enn til á svæðinu samkvæmt gildandi deiliskipulagi og eitthvað hefur selst síðan framkvæmdir hófust, þannig að nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér lóð og byggja sér nýtt hesthús á okkar frábæra félags- og útreiðasvæði.

Samfella er komið í íþróttastarf félagsins allt árið, því það eru námskeið í gangi allt árið um kring reiðmennskuæfingar, knapamerki og keppnisakademía eru kennd frá byrjun september til júní loka og þá eru reiðskólarnir byrjaðir en við höfum verið í samstarfi við Íshesta og Fáka og fjör síðastliðin ár. Ýmiss önnur styttri námskeið voru einnig haldin, pollanámskeið, nokkur helgarnámskeið og kvennatöltsæfingar. Það verður gríðarlega gaman og þvílík aðstöðubreyting hjá okkar afreksfólki og iðkendum hestaíþróttarinnar þegar nýja reiðhöllin okkar verður tilbúin og komin í notkun, við eigum ekki eftir að gera neitt annað en að stækka og eflast á komandi árum.

Keppnisfólkið okkar hefur staðið sig vel á árinu. Ljómandi góðar skráningar voru á mótunum okkar í ár, miðað við erfiðar aðstæður við mótsvæðið okkar vegna framkvæmda við nýja reiðhöll. Stjórn og framkvæmdastóri ákváðu að engar kynbótasýningar yrðu hjá okkur í ár og því miður verða þær ekki heldur næsta ár vegna framkvæmda. En keppnis- og sýningasvæðið okkar verður það glæsilegasta að framkvæmdum loknum og þá verður gaman að halda stórmót og sýningar.

Okkar keppnisfólk er ávallt duglegt að taka þátt í hinum mörgu deildum sem eru í boði,  það er duglegt að sækja hin ýmsu opnu mót víðsvegar um landið, stendur sig vel og er félaginu til sóma. Við sjáum sýnilegan árangur í fjölgun í barna og unglingaflokki eftir að við tókum upp flokkinn minna vanir til að gefa þeim tækifær sem eru að stíga sin allra fyrstu spor í hestaíþóttinni. Við erum spennt að sjá  þátttöku þessa mikilvæga fólks á landsmótsári, því að reglubundnar reiðmennskuæfingar hafa einnig aukið sjálfstraust þessa unga keppenda.  

Við áttum verðugan fulltrúa í U-21 landsliðinu í hestaíþróttum hana Söru Dís Snorradóttur.

Ingibergur Árnason og skeið hryssan Sólveig voru óvænt valin í landsliðshópinn til að keppa fyrir Íslands hönd í skeiði á HM sem haldið var í Oirscot í Hollandi, en því miður þá féll Sólveig á síðustu læknisskoðuninni og því fór svo að þau fóru ekki út.

Einnig var hestur ræktaður af Margréti Helgu Vilhjálmsdóttur og Þorvaldi Kolbeinssyni Frár frá Sandhól að keppa á heimsmeistaramótinu með gríðarlega góðum árangri.

Við eignuðumst einn Íslandsmeistara í sumar það var Katla Sif Snorradóttir hún var samanlagður fimmgangssigurvegari í ungmennaflokki en mótið var haldið að þessu sinni hjá Sleipni á Selfossi.

Einnig áttum við þrjá þátttakendur í hæfileikamótun LH, en þar þurfa þátttakendur að skila inn umsóknum og valið er í þann hóp. Það voru þær Fanndís Helgadóttir, Júlía Björg Knudsen og Kolbrún Sif Sindradóttir.

Fimmta starfsár félagshúss hófst síðastliðið haust. Starfið þar er okkar helsta leið til viðhalda nýliðun í hestaíþróttinni. Önnur hestamannafélög hafa litið til starfsins okkar í félagshesthúsi. Það kom starfshópur um bætt aðgengi barna að hestamennsku og stjórn LH í heimsókn í vor og kynnti sér starfið í húsinu. Virkilega gaman að eftir þessu frábæra starfi sé tekið. Þar er alltaf líf og fjör. Fullt af ungum hressum áhugasömum stelpum en of fáir strákar, kynjaskiptingin endurspeglast þar eins og annarsstaðar í sportinu, hvað veldur veit enginn, en gaman væri ef það kæmu fleiri gaurar í starfið.

Það sátu fulltrúar frá félaginu á LH þingi síðastliðið haust og á því þingi fékk Hestamannafélagið Sörli æskulýðsbikar LH, en þau eftirsóttu verðlaun eru afhent því félagi sem hefur þótt skara fram úr með sínu æskulýðsstarfi á undangengnu starfsári. Þetta er ein sú æðsta viðurkenning sem hægt er að hljóta fyrir æskulýðsstarf.

Einnig sátu fulltrúar félagsins á 53. ÍBH þingi í vor, þar voru þrír Sörlafélagar heiðraðir fyrir vel unnin störf í þágu Sörla, þau Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir, Hinrik Þór Sigurðsson og Kristín Þorgeirsdóttir.

Það tóku þrjár Sörlastúlkur þær Arnheiður Júlía, Erla Rán og Sóley Lóa þátt í FEIF Youth Camp námsbúðunum í Finnlandi, búðirnar eru fyrir krakka á aldrinum 14-17 ára á árinu. Markmið þeirra er að kynna krökkum frá aðildarlöndum FEIF fyrir hestamenningu annara þjóða formaður æskulýðsnefndar LH Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir Sörlakona var fararstjóri hópsins.

Stofnuð var fjáröflunarnefnd vegna nýju reiðhallarinnar. Í henni eru Atli Már Ingólfsson, Magnús Sch Thorsteinsson, Rósbjörg Jónsdóttir og Valka Jónsdóttir. Þau vinna finna aðal styrktaraðila Sörlahallarinnar.

Skírdagshappdrættið er enn aftur okkar stærsta fjáröflun og félaginu gríðarlega mikilvægt –  auðvitað mikil vinna bæði að afla vinninga og svo að selja miðana, við fengum nokkra öfluga félagsmenn til að hjálp okkur við það í ár og gekk það vel.

Fundað var með umhverfis og skipulagsviði bæjarins vegna ýmissamála í febrúar t.d  endurskipulagi á nýjum lóðum, kerrusvæði og akstursleiðum í efra hvefinu, búið er að margkalla eftir nýjum fundi því við þurfum lausnir sem fyrst, en allt sem snýr að skipulagsmálum er svo þungt í vöfum og tekur tíma, en við  erum komin með fundarboð í næstu viku og þá skýrist vonandi eitthvað.

Við seldum merkta létta jakka til félagsmanna, eftirspurnin er mikil og auðvitað er okkur mikið í mun að merkja sem flesta, svo félagsmenn okkar séu sýnilegir alls staðar þar sem hestamenn koma saman.

Ráðist var í ýmislegt viðhald. Lækka þurfti gólfið og skipta um gólfefni í  litlu reiðhöllinni við félagshúsið. Leigjendunum hefur fjölgað jafnt og þétt í húsinu, því var ákveðið að smíða 20 skápa, tvær 10 skápa einingar, þannig að leigjendur gætu verið með allt dótið sitt reiðtygi, hjálma ofl í læstum skápum, það var alveg ómögulegt að allir geymdu dótið sitt í sameiginlegri hnakkageymslu.

Það var bætt efni í keppnisvöllinn og æfingavöllinn síðastliðið haust og þeir heflaðir, verk sem nauðsynlegt er að gera á haustin svo efnið nái að setja yfir veturinn.

Einnig var bætt efni í reiðhallargólfið síðastliðið vor, það þarf að gera það reglulega og betra oftar og setja þá minna í einu.

Í haust er búið að vera að háþrýsti því Sörlastaði að utan og búið að epoxigrunna 2x yfir, síðan á að mála og laga leka í kringum gluggana. Þetta er samvinnu verkefni á milli okkar og bæjarins og við þurfum að greiða 15% af heildar upphæðinni.

Sörlastaðir hafa tekið breytingum frá því að framkvæmdir hófust í vor, innréttingar úr hesthúsi voru rifnar, inngangar færðir og vegg slegið upp til að aðgreina ríðandi og gangandi. Þá var Sörlastöðum í raun breytt í vinnubúðir fyrir iðnaðarmennina sem vinna við smíðar á nýbyggingunni, þeir eru búnir að dreifa smátt og smátt úr sé, en félagið fær greitt fyrir að leggja til aðstöðuna og gengur það upp í okkar fjárframlag í nýju höllinni. Verkið er á áætlun en öll uppsteypa á að klárast núna fyrir áramót og húsið mun rísa á vormánuðum.

Í sumar og haust höfum við skipulagt gróðurlundinn okkar Sörlalund sem er lundur sem við höfum tekið í fóstur hjá Skógrækt Hafnarfjarðar. Þarna ætlum við að gera fína aðstöðu fyrir félagsmenn okkar og standa fyrir gróðursetningu á komandi árum, en fyrstu trén gróðursettum við í október í fyrra.  Búið er að slá lúpínuna 1x í sumar og slétta flötina, stefnum á að tyrfa hana næsta vor. Ákveðið hefur verið að hlaða vegg og merkja okkur lundinn með fallegu skilti. Grjóthleðslu- og Sörlakonan Kristin Auður Keldal hefur aðstoðað okkur með skipulagningu svæðisins og ætlar hún að halda grjóthleðslunámskeið í lundinum góða um miðjan október.

Að endingu vil ég enn og aftur minna á að til að halda úti jafn öflugu og góðu starfi eins og við höfum gert undan farið ár þá þurfum við öfluga sjálfboðaliða, nefndar- og stjórnarfólk, sem vinnur í þágu félagsins ótrúleg starf og auðvitað eru ekki síður mikilvægir okkar frábæru styrktaraðilar sem styrkja okkur á margvíslegan hátt, flestir ár eftir ár.

Þessu fólki vil ég þakka kærlega fyrir samstarfið síðastliðið ár.

Sigríður Kr Hafþórsdóttir.
framkvæmdastjóri Sörla

4.       Gjaldkeri leggur fram og skýrir árshluta uppgjör félagsins. Afkoma félagsins er nokkuð góð.

5.       Umræður um liði 3 og 4 og atkvæðagreiðsla um reikninga félagsins. Engar athugasemdir koma fram um liði 3 og 4.

6.       Formenn nefnda leggja fram og skýra skýrslur um starf viðkomandi nefnda á liðnu ári

  •   Skýrsla æskulýðsnefndar

  •   Skýrsla ferðanefndar

  •   Skýrsla fræðslunefndar

  •   Skýrsla Krýsuvíkurnefndar

  •   Skýrsla kvennadeildar

  •   Skýrsla kynbótanefndar

  •   Skýrsla laganefndar

  •   Skýrsla lávarðadeildar

  •   Skýrsla móta- og vallanefndar

  •   Skýrsla reiðveganefndar

  •   Skýrsla skemmti- og fjáröflunarnefndar

7.       Kosning formanns. Atli Már Ingólfsson sitjandi formaður gefur kost á sér áfram. Engin mótframboð hafa borist. Allir fundargestir greiða atkvæði með handauppréttingu og er sitjandi formaður kosinn formaður til eins árs.

8.       Kosning þriggja í stjórn. Kjörtímabili þeirra  Einars Ásgeirssonar, Guðbjargar Ragnarsdóttir og Maríu Júlíu Rúnarsdóttur. Einar og Guðbjörg gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en María Júlía býður sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Óskað er eftir framboðum til stjórnar og gefa þau Bryndís Snorradóttir og Arnór Snæbjörnsson kost á sér í stjórn. Framangreindir aðilar, þ.e. Arnór, Bryndís og María fá öll stuðning fundargesta til stjórnarsetu.

9.       Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara: Tillaga er um að Valka Jónsdóttir og Ísak Gunnarsson gefa kost á sér sem fundarmenn samþykkja. Þá var kosin til vara Halldóra Einarsdóttir.

10.   Kosning í nefndir, deildir og ráð. Formenn eru kosnir sérstaklega. Í lávarðardeild er ekki kosið, sbr. 18. gr.

11.   Tillaga lögð fram til samþykktar um árgjald næsta árs. Formaður kynnir tillögu um hækkun félagsgjalda þ.e. úr 15.000 kr. á ári í 17.500 kr. Þrátt fyrir hækkun munu félagsgjöldin vera lægri en félagsgjöld í nágranna hestamannafélögunum. Fundargestir samþykkja tillöguna. Engar athugasemdir eru settar fram.

12.   Önnur mál

Þorsteinn Eyjólfsson bendir á sóðaskap á félagssvæðinu, sértaklega í efri byggðinni. Formaður fer yfir að stjórn hafi ítrekað rætt þetta og beint því til félagsmanna að hafa snyrtilegt í kringum sig. Enn fremur bendir á Þorsteinn á sóðaskap og uppsafnaðan skít í gerið við hús á félagssvæðinu sem notað er í atvinnustarfsemi á svæðinu. Sem og vanrækslu á hrossum sem eru notaðir í atvinnustarfsemi á sama stað. Nokkur umræða fer fram um framangreint og margir fundargestir taka undir ábendingar Þorsteins.

Dagbjört Hulda vekur athygli á góðum og eftirtektarverðum árangri æskulýðsstarfsins hjá Sörla og hvetur félagsmenn að mæta með börnin sín á atburði og halda áfram þessu góða starfi.

Þá skapaðist umræða um framkvæmdir við byggingu nýrrar reiðhallar.

Formaður fór að auki yfir að stjórn hafði leitað til Hafnarfjarðarbæjar um skipulag á nýju kerrustæði á svæðinu og um lausnir fyrir losanir á skít. Þá hefur stjórn einnig óskað eftir því við Hafnarfjarðarbæ að útbúin verði aðstaða fyrir hross/áningu við Hvaleyrarvatn svo hægt sé að fara með hross út í vatnið og baða þau. 

Þá lagði Þorsteinn Eyjólfsson til að þegar nýtt kerrustæði verði komið í gagnið, verði félagsmönnum gert mögulegt að leigja ákveðið pláss á svæðinu. Almennt var tekið vel í tillöguna og upplýst að hið sama hafi verið rætt innan stjórnar.

Ekki fleira gert formaður þakkar félagsmönnum mætingu og góðan fund og fundi slitið kl. 21:45.