Framhalds aðalfundur Sörla. Þriðjudaginn 21. mars 2023 kl. 20:00 að Sörlastöðum
Atli Már Ingólfsson formaður setti fundinn og tilnefndi Arnór Snæbjörnsson sem fundarstjóra sem samþykkt var af fundinum.
Ritari fundar er Guðbjörg Ragnarsdóttir í stjórn Sörla.
Fundarstjóri lýsir yfir að boðað hafi verið til fundarins með lögmætum hætti. FUndargestir gerðu ekki athugasemdir við lögmæti fundarins og telst hann því lögmætur.
Á dagskrá fundarins er að leggja fram kynna ársreikning félagsins vegna ársins 2022.
Kristín Þorgeirsdóttir, gjaldkeri félagsins fer yfir ársreikninginn.
Rekstrartekjur voru rúmlega 80 mkr árið 2022 sem er hækkun frá fyrra ári sem kemur til af meiri virkni í félaginu. Rekstrargjöld voru rúmlega 69 mkr. sem er einnig hækkun af sömu ástæðu. Hagnaður ársins 2022 var tæplega 12 mkr. sem er aðeins minna en í fyrra og eru helstu ástæður launatengd gjöld m.a. vegna aukastarfsmanns hjá félaginu á vordögum 2022 og vegna launa þjálfara vegna aukinnar aðsókn að námskeiðum félagisins.
Fastafjármunir ársins 2022 voru rúmlega 126 mkr, veltufjármunir tæpar 46 mkr og eignir samtals um 172 mkr.
Eigið fé ársins var samtals rúmlega 169 mkr. og skammtímaskuldir rúmlega 2,5 mkr sem samanstendur af útistandandi skuldum sem ekki voru komnar á eindaga í árslok. Skuldir og eigið fé var því samtals tæplega 172 mkr.
Gjaldkeri gerði grein fyrir skýringum á ársreikningnum og nefndi sérstaklega eftirfarandi:
Gert var endurmat á fasteignum og vallarsvæði félagsins m.v. byggingavísitölu í desember 2022. Síðast var endurmat bókfært í janúar 2020.
Í lok árs 2021 átti Hestamannafélagið Sörli félagshúsið sem Hafnarfjarðarbær keypti síðan af félaginu í byrjun árs 2022. Af þeim sökum eru afskriftir lægri á árinu 2022 en 2021.
Gjöld og tekjur vegna námskeiða eru töluvert hærri á árinu 2022 en árið 2021. Breytingar í hestaíþróttinni gera ásóknina meiri og komast færri að en vilja vegna skorts á húsnæði.
Fjárhagslega er félagið vel rekið. Félagshús er afar vel rekið þegar á heildina er litið þar sem ekki er stefnan að reka það með hagnaði.
Ársreikningurinn var borinn undir aðalfund og engar athugasemdir voru gerðar og hann samþykktur samhljóða af viðstöddum.
Almennar umræður fóru fram, m.a. um nýja reiðhöll og breytingar á inngangi á gömlu reiðhöllinni til að auðvelda aðgang fyrir hestafólk. Rætt var að framkvæmdir hefjist um leið og frost fer úr jörðu. Einnig var rætt að reyna að fremsta megni að hækka ekki gjöld s.s. félagsgjöld, lyklaleigu og skírdagskaffið árið 2022. Eingöngu væri nauðsynlegt að hækka mótagjöld vegna hækkunar aðkeyptra þátta.
Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 21:00