Lög Hestamannafélagsins Sörla

Haltu lög er sjálfur settir 

Samþykkt á aðalfundi 2018

1. gr.

Nafn félagsins er Hestamannafélagið Sörli og er heimili þess og varnarþing í Hafnarfirði.

2. gr.

Hlutverk félagsins er:

Að iðka hestaíþróttir og stuðla að réttri og góðri meðferð hesta og efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra.

Að vinna að því að flutt séu á vegum félagsins fræðsluerindi um hestaíþróttir, hrossarækt og önnur málefni á áhugasviði hestamanna.

Að eiga og reka félagsheimili.

Að reiðvegir séu gerðir sem víðast, þannig að önnur umferð verði til sem minnstrar hindrunar og óþæginda og gagnkvæmt. Vegum þessum sé ávallt haldið við eins vel og efni og aðstæður leyfa.

Að bæta aðstöðu félagsmanna til að iðka hestamennsku sem tómstundagaman, keppnis- og sýningaríþrótt með því m.a.: Að koma upp völlum og byggja upp íþróttamannvirki og viðhalda til æfinga, keppni og hestaíþrótta. Að beita sér fyrir útvegun haglendis fyrir hesta félagsmanna. 

3. gr.

Félagar geta allir orðið. Æski einhver að gerast félagi skal hann senda umsókn til félagsins/starfsmanns.

Félagsmenn bera ekki fjárhagslega ábyrgð vegna skuldbindinga félagsins umfram greiðslu árgjalds.

4. gr.

Nýr félagi skal ekki njóta félagsréttinda fyrr en hann hefur greitt árgjald yfirstandandi starfsárs.

Félagsmaður, sem skuldar árgjald eða stendur að öðru leyti í skuld við félagið, má vænta þess að falla af félagatali við lok reikningsárs. 

Félagsmenn, sem eru ekki fullra 18 ára, hafa ekki atkvæðisrétt um sérstök málefni, svo sem þau sem hafa í för með sér meiriháttar fjárskuldbindingar, samkvæmt úrskurði stjórnar. Þeir hinir sömu hafa ekki heldur kjörgengi og kosningarrétt til ársþings Landssamband hestamannafélaga. 

5. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Þó skal aðalfundi gerð grein fyrir rekstri fyrstu sex mánuði ársins, sem er að líða.

Stjórn félagsins ber alla ábyrgð og hefur yfirstjórn á fjárreiðum félagsins og einstakra deilda og nefnda. Deildum og nefndum er óheimilt að stofna til fjárskuldbindinga án samþykkis stjórnar félagsins.

Reikningar félagsins skulu samdir af fagaðila og áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum félagsins.

Reikningar félagsins skulu liggja frammi til skoðunar einni viku fyrir aðalfund.

Hefja skal innheimtu félagsgjalda í upphafi árs og stefnt að því að henni sé lokið 1. mars.

Þeir félagar, sem náð hafa sjötugsaldri, skulu vera undanþegnir greiðslu árgjalds auk félagsmanna yngri en 18 ára.

6. gr.

Aðalfund skal halda í september ár hvert. Til hans skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara með auglýsingu á heimasíðu félagsins, auglýsingu sem hengd er upp á aðgengilegum stað auk annara samfélagsmiðla að mati stjórnar. Í fundarboði skal vísað til laga félagsins um dagskrá.

Dagskrá aðalfundar sé:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Fjöldi félagsmanna kunngerður og upplýsingar gefnar um fjölgun þeirra eða fækkun.

3. Formaður leggur fram og skýrir skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári.

4. Gjaldkeri leggur fram og skýrir reikninga félagsins.

5. Umræður um liði 3 og 4 og atkvæðagreiðsla um reikningana.

6. Formenn nefnda leggi fram og skýri skýrslur um starf viðkomandi nefnda á liðnu ári.

7. Kosning formanns.

8. Kosning sex manna í stjórn.

9. Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara.

10. Kosning í nefndir, deildir og ráð og skal kjósa formenn sérstaklega. Í lávarðadeild er ekki kosið, sbr. 18. gr.

11. Tillaga lögð fram til samþykktar um árgjald næsta árs.

12. Lagabreytingar.

13. Önnur mál sem félagið varðar.

Kosningar skulu vera leynilegar ef minnst þriðjungur atkvæðisbærra fundarmanna óskar þess.

7. gr.

Stjórn ákveður félagsfundi og skulu þeir haldnir svo oft sem þurfa þykir.

Ef minnst 15 félagsmenn æskja þess skriflega og tilgreina fundarefni skal boða til félagsfundar innan 10 daga frá móttöku beiðninnar.

Til félagsfunda skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara með auglýsingum á félagssvæðinu ásamt tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Stjórn skal kveðja formenn nefnda til sameiginlegra funda eigi sjaldnar en þrisvar á ári; að hausti, vetri og vori.

8. gr.

Stjórn félagsins skipa sjö menn: Formaður, gjaldkeri, ritari, varaformaður og þrír meðstjórnendur. Kjörtímabil annarra en formans er tvö  ár og skal kosið um þrjú sæti auk formanns á hverjum aðalfundi. Láti fleiri en einn af störfum einhverra hluta vegna á kjörtímabilinu skal eins fljótt og auðið er kjósa um nýja menn á félagsfundi til bráðabirgða fram að næsta aðalfundi og skulu þeir sem þannig eru kosnir  hafa full réttindi og skyldur sem stjórnarmenn. 

Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Fundargerð stjórnarfunda skal rituð á hverjum fundi og lesin upp á næsta fundi. Útdrættir fundargerða skulu birtir á vefsíðu félagsins.

9. gr.

Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim.

Formaður er fulltrúi félagsins út á við og hefur ásamt félagsstjórninni yfirumsjón með allri starfsemi þess.

Varaformaður gegnir öllum sömu störfum og formaður í forföllum hans.

Formaður skal ekki sitja í stjórn nefnda, ráða eða deilda félagsins.

10. gr.

Ritari ritar allar fundargerðir stjórnarfunda og undirritar þær ásamt formanni.

11. gr.

Gjaldkeri félagsins hefur yfirumsjón með innheimtu félagsgjalda og fjárreiðum félagsins í samráði við framkvæmdastjóra í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju.

Gjaldkeri félagsins, í samráði við framkvæmdastjóra, skal fyrir aðalfund ár hvert gera eða láta gera árshlutareikning um hag félagsins og leggja fyrir aðalfund. Staðfestur ársreikningur, í samræmi við lög, skal lagður fyrir framhaldsaðalfund til úrskurðar.

Gjaldkeri, í samráði við framkvæmdastjóra félagsins, lætur skila reikningsyfirliti fyrir nefndir félagsins í samræmi við lög og reikningsskilavenju. Skulu nefndir skila framkvæmdastjóra reikningsyfirlitum eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund.

12. gr.

Stjórn hefur heimild til að ráða framkvæmdastjóra fyrir félagið. Framkvæmdastjóri skal ekki eiga sæti í stjórn né sæti í lögbundnun nefndum félagsins. Stjórn semur við framkvæmdastjóra um starfsskyldur og endurgjald fyrir starfann. Gera skal skriflegan ráðningarsamning við framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri heyrir beint undir stjórn félagsins og framkvæmir ákvarðanir stjórnar og gætir þess að starfsemi félagsins sé í samræmi við stefnu stjórnar og lög félagsins.

Framkvæmdastjóri annast jafnframt daglegan rekstur félagsins og heldur utan um fjármál þess í samráði við gjaldkera stjórnar. Meðal helstu starfsskyldna framkvæmdastjóra teljast jafnframt, umsjón með útleigu, samskipti við stjórn, félagsmenn, nefndir félagsins, fjölmiðla, og hagsmunaaðila. Viðburða- og verkefnastjórnun vegna atburða á vegum félagsins og þjónustu við félagsmenn og utanumhald um félagatal.

Stjórn félagsins kveður nánar á um starfsskyldur framkvæmdastjóra í ráðningarsamningi hans.

Framkvæmdastjóri situr fundi stjórnar, að hennar ósk, en hefur ekki atkvæðisrétt og er ekki stjórnarmaður.

13. gr.

Stjórn félagsins er heimilt að útnefna heiðursfélaga.

Heiðursfélagar geta þeir einir orðið sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félaginu og markmiðum þess.

14. gr.

Með aðild félagsins að Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar er það jafnframt aðili að Landssambandi hestamannafélaga Úrsögn skal ákveðin á aðalfundi á þann hátt, sem fyrir er mælt í 20. gr.

Formaður félagsins skal vera sjálfkjörinn fulltrúi félagsins á ársþingi L.H. Stjórnin velur aðra fulltrúa.

Fulltrúar félagsins á ársþingum L.H. eiga rétta á greiðslu ferða- og dvalarkostnaðar samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

15. gr.

Keppnisreglur skulu vera samkvæmt samþykktum Landssambands hestamannafélaga.

Stjórn félagsins ákveður um keppnishald og skipar starfsnefndir eftir því sem lög og reglur L.H. mæla fyrir.

16. gr.

Í félaginu skulu vera starfandi eftirtaldar nefndir, deildir og ráð: 

 1. Móta- og vallanefnd. 

 2. Ferðanefnd. 

 3. Fjáröflunar- og skemmtinefnd. 

 4. Krýsuvíkurnefnd. 

 5. Kynbótanefnd. 

 6. Fræðslunefnd. 

 7. 'Æskulýðsnefnd. 

 8. Lávarðadeild. 

 9. Foreldraráð. 

 10. 'Reiðveganefnd. 

 11. Laganefnd.

Stjórn félagsins getur skipað nefndir til ákveðinna verkefna.

Deildir, ráð og nefndir eru bundnar af lögum félagsins.

Deildir, ráð og nefndir, sem stofnaðar eru á aðalfundi, verða ekki lagðar niður nema samkvæmt ákvörðun aðalfundar.

17. gr.

Stjórn félagsins er óheimilt að selja eignir félagsins, kaupa fasteignir eða hefja byggingu þeirra nema samþykki aðalfundar eða félagsfundar komi til.

Hyggist stjórnin leita samþykkis fundar fyrir slíkri ráðstöfun skal geta þess í fundarboði.

18. gr.

Nefndum, deildum, ráðum og stjórn ber að fara eftir sérstökum starfslýsingum sem samþykktar eru af stjórn félagsins. Stjórn endurskoðar starfslýsingar eftir því sem þurfa þykir, að fengnum umsögnum eða tillögum frá viðkomandi nefndum. Stjórn skal samþykkja starfslýsingar á fundi sínum og birta þær á vef.

19. gr.

Lávarðadeild skipa allir fyrrverandi formenn félagsins, enda séu þeir enn félagar. Deildin komi saman minnst einu sinni á ári. Hún skiptir með sér verkum og kýs sér formann og ritara til eins árs í senn. Formaður boðar til funda.

Stjórn félagsins getur leitað til lávarðadeildarinnar með málefni sem hún telur henta, t.d. siðamál, fjár- og eignamál og ágreiningsmál. Einnig getur deildin átt fumkvæði að tillögugerð til stjórnar 

20. gr.

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi þar sem mættir eru minnst 1/5 hluti lögmætra félagsmanna og 2/3 hlutar greiddra atkvæða samþykki breytinguna.

Mæti of fáir skal boða til framhaldsaðalfundar á ný og öðlast þá áður fram komin lagabreyting gildi ef hún er samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða án tillits til þess hve margir félagsmanna eru mættir á fundinum.

Tillögur, sem félagsmenn vilja bera fram á lögum félagsins eða reglum þess, skulu berast stjórninni skriflega eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Gefur stjórnin félagsmönnum kost á að athuga slíkar tillögur fyrir aðalfund svo og tillögur sem hún hyggst bera fram til breytinga á lögum og reglum félagsins.

Lög og lagabreytingar hestamannafélagsins Sörla í Hafnarfirði öðlast gildi, þegar Íþróttabandalag Hafnarfjarðar hefur staðfest þau, sbr. lög Íþrótta- og Olympíusambands Íslands nr. 22.2.

21. gr.

Ef slíta á félaginu, verður það að gerast á fundi þar sem mættir eru að minnsta kosti 3/4 hlutar félagsmann og verður það því aðeins gert að 2/3 hlutar fundarmanna greiði því atkvæði.

Að öðrum kosti verður að kalla saman fund á ný og verður þá félagið leist upp á löglegan hátt, ef 2/3 fundarmanna greiða því atkvæði án tillits til þess hve margir eru mættir á fundinum. Komi til slita félagsins ber Í.B.H. að taka eignir félagsins til varðveislu.

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi hestamannafélagsins Sörla 25. október 2018