I. Gildissvið
Reglur þessar eru byggðar á lögum og reglugerðum Landssambands hestamanna um keppni á vegum LH (hér eftir reglur LH). Þar sem reglum þessum sleppir gilda reglur LH nema annað sé sérstaklega tekið fram í reglum þessum.
II. Tegund
Mótið er lokað og ætlað skuldlausum félagsmönnum í Hestamannafélaginu Sörla með einni undantekningu þó, 100m skeið getur verið opið öllum keppendum ákveði mótanefnd svo.
Mótið er gæðingakeppni og fer eftir 7. kafla reglna LH. Keppni er á beinni braut.
III. Sérreglur um skoðun á búnaði
Fótaskoðun fer ekki fram á mótaröðinni. Keppandi ber sjálfur ábyrgð á að gæta velferðar hestsins til hins ítrasta og að hann fylgi reglum LH þar um. Mótanefnd Hestamannafélagsins Sörla og/eða dómari áskilur sér rétt til skoða búnað og að vísa knapa og hesti úr braut ef búnaður hests eða knapa er ámælisverður eða augljóslega til þess gerður að skaða velferð hestsins.
IV. Sérreglur um framkvæmd móta
Á fyrsta og öðru móti mótaraðarinnar er keppt í tölti. Keppt er annars vegar í hægu tölti og hins vegar frjálsri ferð á tölti sbr.gr.7.2.6 í reglum LH (Tölt A-flokkur, frjáls hraði) eftir fyrirmælum þular, allir flokkar keppa á beinni braut nema Barnaflokkar og Pollaflokkar þeir keppa á hringvelli. Barnaflokkur meira vanir keppa í hægu tölti og hins vegar frjálsri ferð en Barnaflokkur minna vanir keppa í tölti eða brokki á hægu og hins vegar frjálsri ferð. Pollar teymdir og Pollar ríða sjálfir. Auk þess er keppt í 100 m. skeiði. Riðnir eru tveir sprettir og gildir betri tíminn úr öðrum hvorum sprettinum.
Á þriðja móti mótaraðarinnar er keppt í þrígangi. Knapi hefur sjálfur val um hvaða gangtegundir hann sýnir, en sýna ber þrjár af fimm viðurkenndum gangtegundum íslenska hestsins. Ákveðna vegalengd á beinni braut. Börn og unglingar minna vanir keppa í tvígangi þ.e þurfa að sýna 2 gangtegundir til fullra einkunnar
Flokkar sem standa til boða á mótaröðinni eru:
Skeið
Pollaflokkur
Barnaflokkur minna vanir
Barnaflokkur meira vanir
Unglingaflokkur minna vanir
Unglingaflokkur meira vanir
Ungmennaflokkur
Byrjendaflokkur fullorðinna
Karlar 2
Konur 2
Konur 1
Karlar 1
Heldri menn & konur 55+
Opinn flokkur
Hver keppandi má aðeins skrá í einn flokk og sama flokk fyrir alla mótaröðina. Á fyrstu tveimur mótunum má aðeins keppa með einn hest en á þriðja mótinu má skrá fleiri en einn hest. Mótanefnd áskilur sér rétt til að fella niður flokka eða sameina flokka ef svo ber undir vegna meðal annars dræmrar þátttöku.
Séu 20 eða færri keppendur skráðir í flokk skipar dómari 5 efstu hesta í sæti. Séu keppendur 21 eða fleiri skráðir í flokk velur dómari 10 efstu hesta sem ríða úrslit. Að þeim loknum velur dómari 5 efstu hesta í sæti.
V. Dómarar
Á fyrstu tveimur mótunum er einn dómari en á þriðja mótinu eru dómarar þrír. Dómarar raða í efstu 10 sætin á móti 1 og 2 vegna stigagjafar.
VI. Keppendur, aðstandendur og aðrir viðstaddir
Keppendur skulu sýna íþróttamannslega hegðun og bera virðingu fyrir öðrum keppendum og hrossum.Knapar hlíði fyrirmælum stjórnanda/þular og ríði eftir rásröð eftir því sem við verður komið.
Aðstandendur skulu sömuleiðis sýna íþróttamannslega hegðun og bera virðingu fyrir keppendum og öðrum aðstandendum. Aðstandendur keppenda skulu ekki hafa afskipti af keppendum á meðan keppendur eru í braut. Aðstandendum er þó heimilt að aðstoða keppendur í polla- og barnaflokki.
Mótanefnd Hestamannafélagsins Sörla og/eða dómari áskilur sér rétt til að vísa keppanda, aðstandanda eða öðrum viðstöddum frá braut ef hegðun viðkomandi er til þess fallin að hafa neikvæð eða truflandi áhrif á keppendur, aðstandendur eða aðra viðstadda eða framkvæmd mótsins.
VII. Stigasöfnun
Á mótaröðinni keppir knapi til stiga. Aðeins er hægt að safna stigum í einum flokki. Stigasöfnunin er eftirfarandi
Fyrsta sæti 10 stig
Annað sæti 8 stig
Þriðja sæti 6 stig
Fjórða sæti 5 stig
Fimmta sæti 4 stig
Sjötta til tíunda sæti 3 stig
Að mæta í braut 1 stig
Ekki er keppt til stiga í pollaflokk. Ahugið aðeins Sörlafélagar safna stigum á mótaröðinni.
VIII. Kvartanir
Allar athugasemdir og kvartanir vegna einhvers sem varðar fyrirkomulag mótsins eða annað tengt mótinu skulu berast á netfangið motanefnd@sorli.is