Ársannáll Sörla 1999

Fluttur af Hallmari Sigurðssyni á árshátíð 1999 

Það, sem hefur aldrei gerst áður, getur alltaf skeð aftur, eins og einhver sagði en samt er furðulegt að þessar glöggu og gætnu konur í skemmtinefndinni skyldu klikka á því að velja vitlausan mann til að semja annál ársins. Hann er einn af þeim sem vita eiginlega ekkert hvað gerst  hefur. Hestamennskan er í aðalatriðum fólgin í því að hann tekur sér far með hestum sínum nokkrum sinnum á ári upp í Sléttuhlíð eða í mesta lagi í Andvara. Hann hefur tekið eftir fólki, sem ríður í hringi uppi á veli, en hann hefur aldrei getað skilið til hvers það er gert. Síst af öllu getur hann skilið að menn skuli keppast um að fá galtóma bikara; ekki dropi af koníaki eða neinu almennilegu. Hins vegar hefur hann tekið þátt í virðulegri og þroskandi íþróttagrein sem nefnist fegurðardrykkja á reið. Það gerðist þannig að þeir þrír, hann, Hilmar og Haddi Jóns voru á harðastökki í sleppitúr og fleytifullur peli gekk á milli þeirra án þess að einn einasti dropi færi til spillis. Já, þá höfðu menn ástæðu til að vera stoltir!

Um eitt er annálsritarinn þó til frásagnar og það er sumarferð Sörla. Haldið var frá Kjarnholtum, efst í Biskupstungum, sem leið liggur að Hvítárvatni. Lengst var farið í fornfrægan áningarstað sem heitir Karlsdráttur, gróðursæll unaðsreitur sem dró til sín konur jafnt sem karla. Fjórir af ferðalöngunum mynduðu flokk fjallaskálda sem hnoðuðu saman vísum um allt mögulegt sem gerðist. Til dæmis var það kærkomið yrkisefni þegar Sigga Harðar datt af baki og fór á bólakaf ofan í á:

Árla morguns er sig hollt að baða,
orkustöðvar krafti nýjum hlaða.
Í fyrsta lækjarhyl,
sem fann hún um það bil,
litla Sigga lét sig bara vaða.

Annars er sagan svona:

Nú skal segja söguljóð
um Sörlaferð í Karlsdrátt.
Ferðin sú var feikigóð
og fráleitt neinu áfátt.

Sólskin var og sumarþeyr,
sungið blítt og orgað.
Aldrei drukkum öllu meir
en við gátum torgað.

Margur var þar maður knár
og myndarkonur glaðar
sem ætíð vissu upp á hár
um allt sem var til staðar.

Farið var um fjallasvið
á fákum eða sundi.
Næturhrotur við og við
vöktu oss af blundi.

Þegar saman sátum við
á sumarkvöldi hljóðu
engan sálar-fundu frið
fjallaskáldin góðu.

Ferðanefndin fær vort hrós
og Frikki, Stebba, Kristinn
Öll þau fá nú eina rós
og auk þess rósakvistinn.

Ei var þeirra iðja létt
og einatt þurfti snilli.
Alltaf lágum ósköp þétt
en þó bil á milli.

Ótrúlegt hvað etið gat
allur heili skarinn:
Kjöt og smjör og kryddsalat,
kleinur, fisk vel barinn.

-------

Það er eins og Einar kvað:
Allt vort böl, sem menn svo kalla,
minnkar oftast mjög við það
að maður ríði jó til fjalla.

Karlsdráttur við Hvítárvatn
Karlsdráttur við Hvítárvatn