Grein Jóns Kr. Gunnarssonar í 50 ára afmælisriti Sörla

Stiklað á stóru í sögu félagsins 

Það var stór dagur hjá hafnfirskum hestamönnum þegar þeir komu saman til undirbúningsfundar í Hressingarskálanum í Hafnarfirði sem þá stóð við Strandgötu. Á fundinn voru mættir nokkrir hestamenn og var samþykkt að halda formlegan stofnfund síðar saman dag. Þetta var hinn 7. febrúar 1944. Kosin var laganefnd sem skyldi semja drög að lögum og skyldu þau lögð fram á stofnfundinum. Í nefndina voru kosnir:

Kristinn Hákonarson, formaður,
Garðar S. Gíslason, ritari,
Guðmundur Einarsson gjaldkeri.

Meðstjórnendur:
Björn Bjarnason og Guðmundur Guðmundsson. 

Varamenn voru kosnir:
Þorvarður Þorvarðarson varaformaður,
Jón Magnússon vararitari,
Sumarliði Andrésson varagjaldkeri.

Umfjöllun um nafngift er forvitnilegt að rifja upp en þrjár tillögur komu fram um nafn á hið nýstofnaða félag, Víkingur, Sörli og Skjöldur. Tillagan um Sörla nafnið kom frá Guðmundi Einarssyni. Umræður urðu allmiklar og lauk með því að nýkjörinn formaður gaf 5 mínútna fundarhlé til að fólk gæti rætt málin áður en kæmi til atkvæðagreiðslu.

Atkvæðin féllu þannig að Sörli fékk flest atkvæði og telja má nú eftir á að nafngiftin hafi verið vel valin því að Sörli er gamalt og gott hestanafn, þó að frægastur Sörla sé vafalaust hestur Skúla sem rann með hann á flótta frá Þingvöllum eftir að dómur hafði fallið á hann. Grímur Thomesen gerði Sörla og Skúla fræga og ógleymanlega í kvæði sínu, Skúlaskeið.

Það kemur skýrt fram þegar í fyrstu fundargerðum Sörla að brýnasta hagsmunamálið var að útvega hagabeit fyrir hesta félagsmanna. Raunar kemur fram öll fyrstu árin að hagbeitarmálin voru löngum ofarlega á baugi. Þó að málið væri leyst að nokkru þegar á fyrsta ári með því að bæjaryfirvöld heimiluðu félögum í Sörla að girða í svokölluðu Austurhrauni sem er svæðið þar sem nú eru verslunarhúsin við Reykjanesbraut og í Kaplakrika. Heimildin var háð því skilyrði að girt yrði með tveggja strengja girðingu. Ekki voru allir á eitt sáttir um beitarlandið, töldu það of lítið og hrjóstrugt. Þegar kom fram áhugi á beitarlandi í Krýsuvík.

Góð lausn að mati félagsmanna var ekki fundin fyrr en síðar þegar aðstaða fékkst í Krýsuvíkurlandi. Margir lögðu á sig mikla vinnu við að girða og halda við girðingum í sjálfboðavinnu.

Á öðrum fundi Sörla kemur fram uppástunga um að fara ríðandi til Þingvalla, ásamt félögum úr Fáki, dagana 16.-17. júní á Lýðveldishátíðina. Tillagan var samþykkt en ekki var neitt bókfært um þátttöku í þessari Þingvallaferð.

Á aðalfundi 9. mars 1945 baðst Kristinn Hákonarson eindregið undan því að vera endurkjörinn formaður og svo var og um fleiri stjórnarmenn að þeir skoruðust undan endurkjöri.

Björn Bjarnason var því kjörinn formaður, Ólafur Guðlaugsson ritari og Þorvarður Þorvarðarson gjaldkeri.
Fram kom að fyrsta skemmtun félagsins hafði þegar verið haldin og reyndist nokkur arður af henni ásamt bögglauppboði.

Fjármál voru nokkuð til umræðu vegna kaupa á girðingaefni og fjáröflun því talin brýn. Samþykkt var að efna til happdrættis í fjáröflunarskyni.

Snemma var farið að kjósa í hinar ýmsu nefndir til að dreifa störfum í félaginu, meðal annars var kosið í undirbúningsnefnd um gerð skeiðvallar á félagsfundi 11. nóvember 1945.

Það olli vonbrigðum á aðalfundi 6. maí 1946 að bæjarráð sá sér ekki fært að veita félaginu heimild til að girða svæði í Krýsuvík en tilkynnti þó að sumarbeit yrði látin óátalin um sumarið. Á þessum fundi kom fram að hestaeign félagsmanna væri 53 hestar. Björn Bjarnason var endurkjörinn formaður.

Áfangasigur vannst í mars 1947 þegar tilkynnt var í bréfi frá bæjarstjóra að veitt yrði heimild til að girða af beitarland fyrir hesta í Krýsuvík. Málinu var fagnað af félagsmönnum Sörla og ákveðið að girða í sjálfboðavinnu. Samþykkt var jafnframt að halda við girðingunni í Hafnarfirði.

Ætíð voru í gangi umræður um beitargjöld og tilhögun á beit og hversu mörg hross mætti hafa í girðingunum. Hagbeitin hefur löngum verið áberandi hagsmunamál eftir þeim umræðum að dæma sem skráðar eru í fundargerðarbækur.

Á fundi í febrúar 1948 kom fram að hestaeign félagsmanna væri orðin 69 hestar. Á þessum árum voru hestar bæði í girðingunni í bænum og í Krýsuvík.

Öðru hvoru örlaði á deilum um beitarmálin. Beitargjöld, áburðardreifing og viðhald girðinga voru oft á dagsskrá og einnig hvort ofbeitt væri í girðingunum eða hvort hestum óviðkomandi félagsmönnum væri sleppt í girðingar.

Bæjarstjórinn hjó á þann hnút í bréfi til félagsins í júlí 1948 og taldi hann að öllum hestum Hafnfirðinga skyldi heimil hagaganga. Félagar lýstu óánægju sinni vegna þessarar ákvörðunar en þeir töldu Sörla hafa veitingu fyrir beitarlöndum.

Samþykkt var að halda skemmtifund vegna 5 ára afmælis Sörla en ekki er bókað nánar hvar eða hvernig sú skemmtun fór fram. Flestir félagsfundir fóru hinsvegar fram í Góðtemplarahúsinu á þessum árum.
Á félagsfundi 17. september 1949 lá fyrir erindi um stofnun Landssamband hestamanna og hvort Sörli vildi gerast stofnaðili. Erindið var samþykkt. Fulltrúar Sörla á stofnfundinn voru kjörnir þeir Björn Bjarnason og Kristinn Hákonarson. Kristinn átti eftir að vera fulltrúi Sörla hjá Landssambandinu í fjölda ára og var síðar gerður að heiðursfélaga.    

Ekki er bókað sérstaklega um skemmtanir Sörla á þessum fyrstu árum en þó kemur fram á aðalafundi 28. mars 1959 að sex skemmtifundir hafi verið haldnir auk árshátíðar og farið hefði verið í eina hópferð á hestum. Félagsfundir voru fjórir það starfsárið. Sólveig Baldvinsdóttir var formaður skemmtinefndar í mörg ár.

Mikið starf lá í vinnu við girðingar og áburðardreifingu sem fyrr. Á þessum aðalfundi 1950 var kosin skeiðvallarnefnd til að undirbúa gerð skeiðvallar og finna honum stað. Hugmyndir voru uppi um æfingar- og kappreiðavöll í Kjóadal.

Á aðalfundi 6. maí 1952 var Kristinn Hákonarson kjörinn formaður á ný en Björn Bjarnason baðst eindregið undan endurkosningu.

Deilur urðu á þessum fundi í maí 1952 vegna þess áhugaleysis sem verið hafði um að hefja framkvæmdir við skeiðvöll í Kjóadal en heimild til vallargerðar hafði fengist nokkrum árum áður. Eftir miklar umræður var á ný kosin nefnd til undirbúnings í málinu.

Síðar á árinu, eða 6. október, var haldinn félagsfundur sérstaklega vegna skeiðvallarmálsins. Þar upplýsti Kristinn Hákonarson formaður að hann hefði verið boðaður á fund til Helga Hannessonar bæjarstjóra og Guðmundar Gissurarsonar bæjarráðsmanns. Kristni var tjáð að fyrri veiting fyrir skeiðvelli í Kjóadal hefði af vangá fallið í gleymsku og að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefði því verið veitt svæðið. Það var því beðið um eftirgjöf á Kjóadal en til málamiðlunar boðið annað svæði við Kaldárselsveg. Tillagan um eftirgjöf var samþykkt. Á árinu 1952 var tekin afstaða til mála Landssambandsins. Studd var tillaga um kaup á Kirkjubæjarbúinu á Rangaárvöllum og um landsmót hestamanna. Áhyggjur komu fram hjá sumum félagsmönnum að umsvif Landssambandsins gætu valdið útgjöldum hjá einstökum félögum.

Öll þessi fyrstu ár í félagsstarfi Sörla kemur fram að fjárhagur er þungur en helstu útgjöldin eru vegna girðingarmála á beitarlöndum. Þrátt fyrir nokkurn hagnað af happdrættum skortir talsvert á góðan fjárhag.

Útgjöld hafði félagið einnig af gerð skeiðvallarins en framkvæmdir hófust að því er best verður séð á árinu 1952. Mikil sjálfboðavinna var unnin. Boðað var til fyrstu kappreiðanna 16. ágúst 1953. Á félagsfundi 28. júlí var samþykkt að skeiðvöllurinn skyldi heita "Sörlavöllur". Fram kom á fundinum að Kristinn Hákonarson og Þorlákur Guðlaugsson hefðu mest unnið við vallargerðina en fleiri þyrftu að leggja hönd á plóginn.

Á aðalfundi 2. mars 1955 kemur fram að tveir almennir félagsfundir og fjórir stjórnarfundir hafði verið haldnir á starfsárinu. Árshátíð fór fram 26. febrúar með hangikjötsáti eins og það er bókað. Þetta var jafnframt afmælisfundur í tilefni af 10 ára afmæli Sörla. Á þessum aðalfundi var Sumarliði Kr. Andrésson kjörinn formaður því að Kristinn Hákonarson baðst eindregið undan endurkjöri.

Enn urðu breytingar á setu í formannsembætti á aðalfundi 4. júní 1956 en við tók Árni Sigurjónsson.

Nokkrar ýfingar urðu á árinu 1956 um beitarlandið í Krýsuvík en bæjarstjórn vildi segja upp gildandi samkomulagi um svæðið enda var samkomulagið munnlegt. Enn um sinn tregðuðust félagsmenn við að fjarlægja girðingarnar í Krýsuvík og fengu að beita á svæðið óátalið um tíma.

Ekki kemur glögglega fram eftir fundargerðum hvort kappreiðar voru haldnar öll vor á Sörlavelli en á aðalfundi 1957 getur formaður þess í skýrslu að mót var haldið vorið 1957. Á því starfsári voru haldnir sex stjórnarfundir og þrír félagsfundir. Þá kemur einnig fram að í Krýsuvík voru girðingar lagfærðar á ný og eldri girðingar teknar niður að hluta. Ennfremur fékkst aukið land til afnota við skeiðvöllinn. Ein sameiginleg ferð var farin á hestum.

Fjárhagur virðist hafa batnað því að á árinu 1957 kom fram tillaga um að lána Landsambandi hestamanna ótilgreinda upphæð til bráðabirgða. Landsambandið taldi sig vera í tímabundnum fjárhagskröggum.
Í skýrslu formanns Árna Sigurjónssonar á aðalfundi 9. október 1959 kemur fram að þrír stjórnarfundir voru haldnir á starfsárinu, girðingar voru lagfærðar og farið var í einn sameiginlegan útreiðartúr. Fram kom í skýrslu formanns að eignir félagsins væru alls 35.538,15 kr.

Árni var endurkjörinn formaður, Kristján Guðmundsson varaformaður, Bragi Marsveinsson ritari og Sigurður Arnórsson gjaldkeri. Utan dagsskrár er bókuð fyrirspurn um hvort ekki sé mögulegt að halda kappreiðar á næsta vori. Í framhaldi kom fram að Sörlavöllur þyrfti lagfæringa við svo að minnsta kosti væri hægt að æfa á vellinum. Engin ákvörðun var tekin og ekki kemur fram hvort kappreiðar voru haldnar í það skiptið.

Á milli aðalfunda virðist sem ekki hafi verið haldnir neinir félagsfundir en stjórnarfundir voru haldnir. Árni Sigurjónsson var endurkjörinn formaður á aðalfundi 15. júní 1960. Eignir eru bókaðar 33.897,95 kr. En skuldir voru engar. Hvatt er til þátttöku í fjórðungsmóti hestamanna sem halda á í Borgarfirði, en ekki kemur fram hvort sú ferð var farin. Á aðalfundi 5. október 1961 var endurkjörinn formaður, var lagt fram tilboð um hesthúsalönd enda líkur á því að menn verði reknir úr bænum með hesta sína. Nokkrir staðir eru tilnefndir en ekki voru menn sammála um stað til að setja sig niður á og byggja. Engar ákvarðanir voru teknar en skýrt kemur fram að mönnum finnst að verið sé að stugga við þeim. Ennfremur kom fram óánægja vegna þess að gamlar reiðgötur væru girtar af með skógræktargirðingum í Undirhlíðum. Samþykkt að hreyfa mótmælum.

Á aðalfundi 3. maí 1962 er rætt um hesthúsaland sem stendur til boða, ræktarland sem verið hefur í eigu Þorláks Guðlaugssonar og muni verða veitt til 15. ára. Samþykkt var að taka þessu tilboði. Á þessum aðalfundi var Árni Sigurjónsson endurkjörinn formaður. Kristinn Hákonarson var kosinn ritari og Böðvar B. Sigurðsson gjaldkeri. Á þessum fundi kom einnig fram að hestum hafi á árinu áður verið beitt í Arnarnesi og var samþykkt að halda því landi áfram á leigu.

Í fundargerð aðalfundar 24. júlí 1963 kom fram að fjórir stjórnarfundir hefðu verið haldnir á starfsárinu og að farið hefði verið í eina skemmtiferð, riðið suður um fjöll, haldnar voru kappreiðar og tekið þátt í kappreiðum á Þingvöllum. Á þessum aðalfundi baðst Árni Sigurjónsson formaður undan endurkjöri og var Kristján Guðmundsson kosinn í hans stað.

Enn eru aðstæður félagsmanna til umræðu, girðingarmál og nauðsyn þess að fullgera þær byggingar sem byrjað hefur verið á. Æskilegt er talið í umræðum að fara í fleiri skemmtiferðir á vegum félagsins.

14. maí 1964 var haldinn aðalfundur í Góðtemplarahúsinu. Í skýrslu formanns kom fram að tvær sameiginlegar ferðir hefðu verið farnar á starfsárinu. Girðingarmál eru enn til umræðu og fram kemur að auk girðingar í Krýsuvík hafi einnig verið lagfærðar girðingar í Setbergslandi. Kappreiðar á Sörlavelli höfðu einnig farið fram.

Kristján Guðmundsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs en í hans stað var Björn Ingvarsson kosinn. Með honum í stjórn voru Guðjón Steingrímsson gjaldkeri og Kristinn Hákonarson ritari.

Enn verða formannaskipti á árinu 1965 og Kristinn Hákonarson tekur enn á ný við formennsku. Fram kemur að húskostur félagsins hefur batnað og möguleikar eru á að hýsa fleiri hesta. Útreiðatúrum hefur einnig fjölgað og mótshaldi hefur verið með ágætum.

Í skýrslu formanns á aðalfundi 20. júní 1966 kemur fram að hesthús hafi verið byggt fyrir 21 hest, kappreiðar verið haldnar og árshátíð haldin í samvinnu við Hestamannafélagið Andvara í Garðahreppi.

Nú var kjörinn formaður Kristinn Ó Karlsson. Félagið hefur auðsjáanlega eflst mjög á þessum árum, félögum hefur fjölgað og fjölbreyttari þátttaka í ýmsum hestamótum og ferðum. Uppbygging Sörlastaða var mikil lyftistöng fyrir allt innra félagsstarf. Hvatt er til þátttöku í landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal sem halda á dagana 15. til 17. júlí og hestamóti á Hellu sem halda á síðar á sumrinu. Fram kom síðar að þátttaka var góð á báðum þessum mótum.

Aðalfundur var haldinn 26. júlí 1967 og í skýrslu formanns segir frá félagsferð, Skógarhólaferð, ferð á hestamót á Hellu og auk þess frekari byggingarframkvæmdum á Sörlastöðum.

Kristinn Ó. Karlsson var endurkjörinn formaður. Jón Bjarnason var hestahirðir á Sörlastöðum og kemur talsvert við sögu. Honum eru þökkuð vel unnin störf. Einnig kom fram á aðalfundinum 1967 að Sörli hefði fengið fé úr Reiðvegasjóði og hvatt var til að það fé yrði notað til lagfæringa á reiðvegum í nágrenninu.
Sörli var aðili að fjórðungsmótinu á Hellu árið 1967 en af því móti urðu talsverðar tekjur. Á félagsfundi 8. maí urðu umræður um framkomnar tillögur um ráðstöfun á tekjuafgangi en ekki kemur skýrt fram í hverju þær tillögur eru fólgnar en samþykkt er að mótmæla þeirri ráðstöfun tekna sem fyrir lá. En á aðalfundi 10. október kom fram að hagnaður af fjórðungsmótinu á Hellu yrði greiddur út til félagsmanna.
Einnig kom fram að hagnaður hafði orðið af kappreiðum félagsins, firmakeppni í Krýsuvík og einnig vegna þátttöku í Skógarhólamóti á Þingvöllum. Kristinn Ó. Karlsson var endurkjörinn formaður.

Á þessum árum kemur skýrt fram að hagur félagsins hefur mjög eflst enda umsvif öll meiri og þátttaka í mótum almennari. Nefndum hefur smám saman fjölgað og félagsstarfið því dreifst á fleiri hendur. Það má nefna að Kristinn Hákonarson hefur fram að þessu verið annar af fulltrúum Sörla í Landssambandi hestamanna frá upphafi sambandsins.

Kristinn Ó. Karlsson var enn á ný endurkjörinn formaður á aðalfundi 15. október 1970. Fram hafði komið á stjórnarfundi nokkru áður að eignir umfram skuldir væru 416.824,10. Sörlastaðanefnd var mjög virk á þessum árum eftir fundargerðum að dæma.

Á aðalfundi 24. október 1971 urðu umræður um hvort leggja skyldi í kostnað við Sörlavöll, skeiðvöllinn við Kaldárselsveg eða hvort leggja skyldi hann niður og koma upp skeiðvelli í Krýsuvík. Aðrir vildu að sáð yrði grasfræi í Sörlavöll og hann bættur á þann hátt.

Einnig kemur fram á þessum fundi að nú væri pláss fyrir 50 hross á Sörlastöðum. Í umræðum kom fram að það var talið til bóta fyrir jákvæðan rekstur Sörlastaða. Kristinn var enn kjörinn formaður.

Hér hefur verið stiklað á stóru í sögu Sörla frá upphafsárunum samkvæmt fundargerðarbókum. Nú verður staldrað við því það sem síðan hefur á dagana drifið kemur vel fram í viðtölum í þessu riti [þ.e. 50 ára afmælisriti Sörla]. Mörg stórvirki hafa verið unnin og margir hafa lagt á sig mikið starf fyrir félagið. Öll gögn bera vott um þróttmikið félagsstarf frá upphafi. Þess skal getið að stofnfundur Íþróttadeildar Sörla, sem kemur síðar mjög við sögu, var haldinn 15. nóvember 1979 og var Sigurður Sæmundsson kosinn formaður hennar.

Að lokum skal getið þeirra formanna sem leitt hafa félagið frá1973 og til þessa dags:

Bergur Hjartarson 1973-1975
Ellert Eggertsson 1975-1978
Halldór Einarsson 1978-1982
Hilmar Sigurðsson 1982-1984
Pjetur N. Pjetursson 1984-1986
Eggert Hvanndal 1986-1988
Birgir Sigurjónsson 1988-

Heiðursfélagar hafa verið kjörnir:

Kristinn Hákonarson,
Árni Sigurjónsson,
Sólveig Baldursdóttir,
Guðmundur Guðmundsson,
Kristinn Ó. Karlsson,
Böðvar B. Sigurðsson,
Þorlákur Guðlaugsson.