Smávegis um holdhnjóska

Nú eða hnjóska 

Mörg hver okkar hafa lent í því að hrossin okkar fái hnjúska og því er ekki úr vegi að fræðast smávegis um það. 

Einkum er það votviðri til skiptis við frostakafla sem gerir skepnunum lífið leitt. Því er afar mikilvægt að eigendur og umráðamenn hrossa fylgist grannt með ástandi og fóðrun, gæti að skjól sé nægjanlegt, fylgist með holdafari og aðgæti hvort hnjúskar séu að myndast.

Í bókinni Hestaheilsu segir Helgi Sigurðsson dýralæknir um hnjúska í hrossum: „Holdhnjúskar eru hrúður og sár sem koma á hross, einkum lend og hrygg.

Orsakir kvillans eru þær að hestar eru sífellt holdvotir í rysjóttu veðri. Þegar skiptast á votviðri og stuttir frostakaflar er voðinn vís. Efsta lag yfirhúðarinnar blotnar og eyðileggst smám saman af rakanum. Leðurhúðin sem sér um að viðhalda hita í líkamanum, verður varnarlítil fyrir kuldanum og fitukirtlarnir veita fitu til varnar út á yfirborð líkamans.

Útferðin verður að hrúðrum á yfirborðinu og klístrast föst við hárin. Sé hrúðrið rifið af er kvikan ber undir. Stundum eru fætur alsettir í hrúðri og bólgnir. Þetta sést einkum hjá hestum sem eru á haustbeit á röku undirlendi.

Hestarnir verða kulvísir og leggja fljótt af. Vika til eða frá getur skipt sköpum. Þannig geta þessir hestar orðið hryggðarmynd á örskömmum tíma. Hrossum sem eru að leggja af, annað hvort vegna hagaleysu eða annarra ástæðna, er hættara við en öðrum hrossum að fá holdhnjúska. Mikilvægast varðandi holdhnjúska er að hrossin hafi gott skjól. Þar sem er flatlent og skjóllítið er nauðsynlegt að byggja skýli eða skjólvegg, þangað sem hrossin geta leitað í vondum veðrum. Opin hús eða byrgi sem hrossin geta farið inn í er þó það besta.

Sé útbreiðsla holdhnjúska mikil þarf að taka hestana á hús og það fyrr en seinna, því vika til eða frá getur skipt máli.

Þetta birtist í Skessuhorni 25. janúar 2012. Ætli þessir Borgfirðingar viti eitthvað?