Á 53. þingi ÍBH voru þrír Sörlafélagar heiðraðir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins

Viðurkenningar ÍBH 

Á 53. ÍBH þingi fengu þrír Sörlafélagar viðurkenningar fyrir frábær störf fyrir félagið. Það voru þau Dagbjört Hulda, Hinrik Þór og Kristín.

Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir
Dagbjört Hulda hefur um árabil stýrt Æskulýðsnefnd Sörla og stýrir nú Æskulýðsnefnd Landssambands hestamanna.
Dagbjört hefur lagt mikla vinnu í að leiða æskulýðsmál félagsins. Það má segja að gott starf hafi orðið enn betra með ferskum innblæstri í takti við nýja tíma. Allt æskulýðsstarf fékk nýjan blæ og var keyrt áfram af miklum metnaði.  Fjölgun virkra félagsmanna í æskulýðsstarfi tók stakkaskiptum meðan hún starfaði sem formaður nefndarinnar.

Hinrik Þór Sigurðsson
Hinrik Þór tók við starfi yfirþjálfara Hestamannafélagsins Sörla árið 2019 þegar það var einungis á tilraunastigi. Hlutverk Hinriks var að leiða íþróttina í félaginu til skipulagðrar starfsemi fyrir bæði börn og fullorðna og hafa með sér úrvals reiðkennara og þjálfara úr röðum Sörla. Hinrik hefur leitt, kennt og skipulagt reiðmennskuæfingar sem nú er hægt að sækja með reglulegum hætti frá hausti til vors. Hann hefur skipulagt reiðmennskuæfingar þannig að ekki er einungis um að ræða verklegar æfingar heldur einnig í formi fræðsluerinda. Hinrik hefur einnig komið á keppniskennslu fyrir þá sem þess óska og hefur ungum keppendum fjölgað mikið síðustu misseri. Hann, ásamt fræðslunefnd og framkvæmdastjóra skipuleggur fræðslu á öllum stigum íþróttarinnar og má segja að starf hans innan Hestamannafélagsins Sörla hafi verið frumkvöðlastarf sem hafi heppnast stórkostlega þar sem að færri komast að en vilja.

Kristín Þorgeirsdóttir.
Kristín er óþreytandi hugmyndauppspretta að nýjum verkefnum og bættu starfi hjá Sörla. Kristín hefur ásamt Hinriki Þór Sigurðssyni þróað reglubundnar reiðmennskuæfingar barna og fullorðinna. Sem snúast um að æfingar séu stundaðar undir handleiðslu menntaðs kennara reglulega yfir allan veturinn, frá hausti til vors á tveimur önnum. Enn sem komið er er Sörli eina hestamannafélagið sem býður upp á slíkar æfingar. Kristín hefur stuðlað að stórauknu starfi innan Sörla með dugnaði og góðri hugmyndavinnu.

Hestamannafélagið Sörli þakkar þessum dugmiklu félagsmönnum fyrir frábær störf fyrir félagið.