Bréf til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar

 

Hafnarfirði 4. nóvember 2020

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar

Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar

Umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar


Efni: Æfingasvæði íþróttafélaga og ágangur annars íþrótta- og útivistarfólks

Æskulýðsnefnd Sörla finnur sig knúna til að skrifa bréf til bæjarstjórnar, skipulags- og byggingarráðs og umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar vegna skipulagsmála í Gráhelluhrauni og við Kaldárselsveg. Misskilnings virðist gæta í umræðu um beiðni Hestamannafélagsins Sörla varðandi aflagningu á göngustíg í gegnum Gráhelluhraun og þverun á reiðstíg við Kaldárselsveg.  Við viljum með þessu bréfi útskýra frá okkar bæjadyrum um hvað málin snúast og vonumst til að opna betur augu þeirra sem málið varðar hjá Hafnarfjarðarbæ.  

Sá misskilningur virðist vera uppi að stjórn Sörla sé að reyna banna alla umferð annara íþrótta- og útivistaiðkenda á öllum reiðvegum og stígum upplands Hafnarfjarðar - en svo er ekki. Það sem  aðstandendur íþróttaiðkenda hjá Sörla og barna sem stunda hestamennsku á félagssvæði Sörla eru að kalla eftir er að reiðvegurinn sem umlykur skóginn og Gráhelluhraunið, næst athafnasvæði félagsins fái að vera viðurkennt sem æfingasvæði Sörla og þannig eingöngu ætlað hestum. Okkar eigin heimavöllur þar sem hestaíþróttafólk á öllum aldri getur verið öruggt án þess að þurfa að verða fyrir hættulegu áreiti annars íþrótta- og útivistarfólks. Á mynd 1 sem fylgir hér að neðan og tekin er af aðalskipulagi upplands Hafnarfjarðar sýnir fjólublá lína hringina í Gráhelluhrauni sem óskað er eftir að verði viðurkennt æfingasvæði Hestamannafélagsins Sörla. Þetta eru þeir tveir reiðhringir sem félagsmenn óska eftir að geta iðkað sína íþrótt í öryggi og friði, líkt og aðrir íþróttaiðkendur Hafnarfjarðar á sínum svæðum. Breiða fjólubláa línan sýnir þá reiðleið sem mest er riðin og er aðaltenging félagsmanna sem staðsettir eru í Hlíðarþúfum við íþróttahöllina að Sörlastöðum. Þessa leið þurfa börn og unglingar sem staðsett eru í Hlíðarþúfum að ríða á leið sinni til og frá æfingum í reiðhöllinni og á keppnisvöllinn sem þar er einnig. Grænir hringir sýna núverandi og væntanlegar þveranir göngustíga á reiðvegum samkvæmt aðalskipulagi upplands Hafnarfjarðar.

Æskulýðsnefnd Sörla telur það vera lágmarks kröfu til bæjaryfirvalda að tryggt sé með sem bestum hætti öryggi yngstu iðkenda hestaíþrótta í bæjarfélaginu og þá ekki síst á reiðleiðinni sem liggur samsíða Kaldárselsvegi á fyrrgreindri leið á æfingar, hvort sem er í reiðhöllinni eða á úti-keppnisvöllum félagsins. Rétt eins og aðrir foreldrar í Hafnarfirði eiga að geta fundið til öryggis á þeim leiðum sem þeirra börn þurfa að fara á æfingar og á þeim svæðum sem þau stunda slíkar æfingar, hvort sem er innan dyra eða utan. Fáum dytti í hug að telja það sjálfsagt að æfa hlaup á golfvelli, golf á fótboltavelli eða körfubolta á frjálsíþróttavelli. Þá dytti fáum í hug að leggja almennan göngustíg þvert í gegnum golfvöll eða aftan við markið á fótboltavelli.

Við höfum ekkert á móti því að mæta gangandi eða hjólandi vegfarendum í útreiðartúrum svona almennt, t.d. þegar við förum út fyrir þetta svæði sem hér um ræðir. Þangað fara hestamenn meðvitaðir um að þar er margskonar útivist og er þá viðbúið slíku, velur sér hross við hæfi sem getur tekist á við þær aðstæður. Og þar þurfa hestamenn að sjálfsögðu að sýna tillitssemi á móti gagnvart þeim sem þar kjósa að stunda sína útivist. En á æfingasvæði þar sem unga fólkið er að æfa sig, þjálfa upp ný hross og eins þar sem margir kjósa að ríða lítið tömdum tryppum er mikilvægt að öryggismál séu í hávegum og að bærinn bregðist ekki í þeim efnum. Skipulagsmál eru mannanna verk og eiga því að geta tekið tilllit til mikilvægra þarfa.

Sörli er íþróttafélag og eitt af stærstu hestamannafélögum landsins. Við erum með gríðarlega öflugt barna-, unglinga- og ungmennastarf. Félagið hefur hlotið verðlaun fyrir frammistöðu sína í æskulýðsstarfi og höfum séð mikinn vöxt í starfinu undanfarin ár. Við státum í dag af gríðarlega metnaðarfullu og flottu æfingastarfi og stunda börn- unglingar- og ungmenni félagsins nú æfingar frá september og fram á sumar líkt og í flestum öðrum íþróttum bæjarins. Það má því segja að hestaíþróttin sé orðin að vaxandi heilsársíþrótt í Hafnarfirði. Við státum einna fárra hestamannafélaga á landinu af því að starfræka félagshesthús þar sem börn geta stundað hestamennsku óháð því hvort fleiri fjölskyldumeðlimir stundi íþróttina. Við erum eina félagið sem höfum þann kost að börn sem ekki eiga sinn eigin hest, sem er lykilþáttur í íþrótt okkar, geta fengið aðgang að hesti í félagshesthúsinu.

Í hestaíþróttum er nauðsynlegt fyrir iðkendur að útvega sér aðstöðu, ýmist að fjárfesta í henni eða leigja. Þetta er ólíkt flestum ef ekki öllum öðrum íþróttagreinum sem stundaðar eru með skipulögðum hætti innan Hafnarfjarðar, svo best við vitum. Af þessum fasteignum fær bærinn síðan fasteignagjöld og -skatta. Bæjarsjóður hefur þannig beinar tekjur af okkar félagsmönnum í formi fasteignagjalda. Í þessu samhengi er sorglegt að horfa upp á bæjaryfirvöld vinna gegn okkar íþrótt og hagsmunum. Eins er dapurlegt að mæta skilningsleysi á þeirri staðreynd að í okkar íþrótt vinnum við með lifandi dýr sem hafa eigin skynfæri ólíkt því sem gerist í öðrum íþróttagreinum.

Íslenski hesturinn er í eðli sínu flóttadýr, um 400 kg spendýr sem er afar næmur með góð skynfæri, betri en við mannfólkið. Hesturinn heyrir hljóð í fjarska áður en við verðum þeirra vör, ólíkt okkur sér hann vel í myrkri, nánast allan hringinn í kring um sig nema rétt beint fyrir framan sig og beint fyrir aftan sig. Hesturinn skynjar hræðslu knapa bæði í gegnum hnakkinn og eins finnur hann lyktina af stresshormóninu adrenalini sem spýtist út í blóð okkar ef við verðum hrædd eða stressuð. Hann getur tekið sjálfstæðar ákvarðanir um hraða og stefnu ef hann upplifir ótta eða óöryggi.  Hér má sem dæmi nefna hjólahljóð af reiðhjólum, barnavögnum að ekki sé talað um vélahljóð mótorhjóla. Allt sem hesturinn ekki þekkir getur hrætt hann og hans viðbrögð við ótta og óöryggi er að flýja – hlaupa eins hratt og hann kemst í burtu. Vanir hestamenn ráða flestir við þessar aðstæður á hestum sem þeir gerþekkja. En börn og unglingar eru mörg enn óreynd og jafnvel á hestum sem þau eru enn að kynnast. Þau ráða því síður við slíkar aðstæður og einnig þeir sem kjósa að ríða minna tömdum hrossum í „örygginu“ á þeim reiðvegum sem hér eru til umræðu. Okkar bremsur eru því háðar aðstæðum ólíkt því sem gerist með hjól og vélknúin ökutæki. Við eigum því mun erfiðara með að afstýra slysum en t.d. sá sem hefur fulla stjórn á hjólinu sínu. En skaðinn getur verið skeður ef hrossinu bregður við hjólið – eða hljóðið í barnavagni.

Æskulýðsnefnd Sörla telur að sú ákvörðun skipulags- og byggingarráðs og staðfesting bæjarstjórnar á að þvera reiðveg með göngustíg á þessu svæði vera merki um skort á þekkingu nefndarmanna og bæjastjórnar á hestaíþróttinni. Umræddri þverun fylgir slysahætta og teljum við að það sé hverjum manni ljósara sem horfir raunsætt á málið að um þennan göngustíg munu ekki eingöngu fara gangandi vegfarendur, heldur munu þarna fara heilu skokkhóparnir og reiðhjólafólk að ógleymdum raffarartækjum hverskonar sem getur skapað mikla slysahættu.

Það er ekki hægt að leggja að jöfnu þverun á reiðveg sem nú er í bígerð og þær þveranir sem eru á göngustígnum við Hlíðarþúfur, líkt og einhverjir kjörnir fulltrúar bæjarins hafa látið í veðri vaka. Þegar við reiðmenn förum yfir þveranir á göngustígnum við Hlíðarþúfur erum við alla jafna á feti á leið okkar frá hesthúsum okkar niður á reiðstíginn. Við erum meðvituð um þá umferð sem í kringum okkur getur verið þar. Þeir reiðmenn sem finna óöryggi í að ríða yfir göngustíginn og akbrautina velja að teyma hesta sína niður á reiðveg og stíga þar á bak. En hins vegar þegar við erum komin á reiðveginn aukum við fljótt ferð okkar og við aukna ferð hægist á „bremsukerfinu okkar“. Því finnst okkur ekki hægt að leggja þessar þveranir að jöfnu og vonum við sem að þessu bréfi stöndum að skrif þessi opni augu bæjaryfirvalda fyrir því sem máli skiptir.

Æskulýðsnefnd Sörla treystir á að málið verið endurskoðað með hagsmuni iðkenda að leiðarljósi. Og einnig þeirra hagsmuna að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á félagssvæði Sörla – enda hljótum við öll að vera sammála um að vilja tryggja svæðið áfram í fremstu röð á Íslandi.

Með von um skjót og réttlát viðbrögð,

fyrir hönd æskulýðsnefndar Sörla,
Dagbjört Hulda Guðbjörnsdóttir,
formaður

Mynd 1 Tekin af Aðalskipulagi upplands Hafnarfjarðar og sýnir fjólublá lína hringina í Gráhelluhrauni sem óskað er eftir sem viðurkenndu æfingasvæði Hestamannafélagsins Sörla þar sem félagsmenn geta ótruflað iðkað sína íþrótt líkt og aðrir íþróttaiðkendur Hafnarfjarðar.