Nú eru meistaradeildirnar allar komnar í gang og tímabilið því formlega hafið á flestum vígstöðvum.
Þann 3 febrúar síðastliðinn var keppt í fjórgangi í Meistaradeild ungmenna og Top Reiter í HorseDay höllinni á Ingólfshvoli.
Við Sörlamenn eigum fulltrúa í flestum deildum og í ungmennadeildinni eru það Salóme Kristín Haraldsdóttir og Ingunn Rán Sigurðardóttir sem eru með í deildinni.
Í fjórgangnum sigraði Jón Ársæll Bergmann á Gerplu frá Bakkakoti með glæsibrag og fjórgangurinn var yfir höfuð feyknasterkur.
Okkar konur komust ekki í úrslit að þessu sinni en við fylgjumst auðvitað með framhaldinu í þessari sterku deild.
Í Meistaradeild Líflands og æskunnar eigum við einnig flotta fulltrúa úr Firðinum en á fjórgangsmóti deildarinnar þann 12 febrúar gerði Kolbrún Sif Sindradóttir á Byl frá Kirkjubæ gótt mót og sigruðu B-úrslitin með góðri sýningu.
Aðrir knapar frá Sörla í deildinni eru Fanndís Helgadóttir, Sara Dís Snorradóttir og Bjarndís Rut Ragnarsdóttir.
Það er virkilega ánægjulegt að sjá að félagið okkar á breiðan hóp knapa sem eru að gera það gott á mótum víðsvegar yfir tímabilið.
Á morgun fimmtudag hefst svo áhugamannadeildin í Spretti, Samskipadeildin og þar eru Þorgerður Gyða Ásmundsdóttir, Inga Kristín Sigurgeirsdóttir, Kristín Ingólfsdóttir, María Júlía Rúnarsdóttir og Darri Gunnarsson á meðal þátttakenda og við óskum þeim góðs gengis í þessu fyrsta móti deildarinnar á nýju tímabili.
Við fylgjumst vel með og hvetjum okkar knapa til dáða og biðjum Sörlafélaga að hafa augun opin og senda okkur línu frá þeim viðburðum sem okkar fólk tekur þátt í.
Áfram Sörli