Orðsending frá stjórn

Neyðarnúmer 

Kæru félagsmenn Sörla

Nú er yfirstandandi okkar mesta vertíð ársins og í raun uppskera vetrarstarfsins þar sem að ungir sem aldnir spreyta sig í keppnum, farið er í hestaferðir, kynbótahross sjást í braut og fl. og fl. Framundan eru því tímar gleði og tilhlökkunar hestamanna á mjög svo margvíslegan hátt á vel þjálfuðum gæðingum.

Okkur í stjórn Sörla er falið það verkefni að halda utan um starfið og það reynum við að gera með dyggri hjálp Diddu framkvæmdastjóra, Hinna yfirþjálfara, reiðkennurum af svæðinu, aðstoð frá Ástu Köru á vormánuðum, nefndarfólki og sjálfboðaliðum að ógleymdri Stebbu okkar sem sèr um að enginn verði svangur. Fyrir þetta erum við óendanlega þakklát og þess vel meðvituð um að án allra þessara aðila væri starfið ekkert.

Þar sem að stjórn er falið að huga vel að framkvæmdastjóra okkar sem og fjármunum fèlagsins langar okkur að biðja alla, vinsamlega, að huga að og virða opnunartíma skrifstofu Sörla sem er alla jafna frá klukkan 8:00 til 16:00 alla virka daga. Á þessum tiltekna tíma er Didda okkar viðlátin og þess utan er hún ekki í vinnu nema að hún meti að þess þurfi. Við viljum því beina þeim tilmælum til félagsmanna að hringja ekki í símanúmer framkvæmdastjóra eða trufla hana í frítíma nema brýna nauðsyn beri til.

Við höfum opnað neyðarsímanúmer Sörla sem er 8552919. Þetta símanúmer er það númer sem svarað verður ef neyðarástand skapast utan 8-16 á virkum dögum. Fleiri en Didda munu svara neyðarsímanum.

Því miður er það svo að truflun utan hefðbundins vinnutíma hefur aukist ár frá ári, sennilega vegna þess að starfsemin er alltaf að færast í aukana og hún er liðleg að hlaupa til. Það er þekkt staðreynd að starfsfólk sem fær ekki frítíma brennur út í starfi. Að auki eru útköll afskaplega dýr og við þurfum að halda vel utan um fjármál félagsins. Með réttu ætti Didda að rukka öll þessi útköll og símtöl í formi launa þó hún hafi ekki gert það hingað til af hollustu við félagið. Okkur er hins vegar varla stætt á því að hún fái þau ekki greidd samkvæmt lögum og samningum. Útköll eru afskaplega dýr og við þurfum að halda vel utan um fjármál félagsins.

Eins og aðrir hestamenn Sörla hlökkum við vorsins með ykkur, það er margt og mikið framundan.

Með vinsamlegri kveðju,

Stjórn Sörla