Tenging á göngustíg í Gráhelluhrauni

Verktakar við vinnu 

Í dag eða á næstu dögum byrja verktakar vinnu við tenginu göngustígsins í Gráhelluhrauni við göngustíginn sem er meðfram Kaldárselsveginum.

Þessi framkvæmd er, eins og áður hefur komið fram, algjörlega í óþökk okkar hestamanna. Við skiljum engan veginn hvers vegna þessi göngustígur er ekki lokaður botnlangi þar sem hægt er að fara í notalegar lautarferðir og njóta náttúrunnar og ganga bara fram og til baka, án þess að ógna öryggi reiðmanna. Það er mat okkar að um sé að ræða algjöran forsendubrest fyrir þessum vegi því fyrir stuttu síðan kom nýr og glæsilegur malbikaður hjóla- og göngustígur fyrir ofan Kaldárselsveg. Af þessum glæsilega nýja vegi er auðveldlega hægt að komast lengra inn í upplandið okkar Hafnfirðinga sem svo gaman er að nota. Öryggi okkar allra væri þá aukið til muna enda vilja allir geta stundað sína útivist í öruggu umhverfi.

En umfram allt kæru hestamenn og félagsmenn Sörla, vinsamlegast farið varlega, sýnið sérstaka aðgát og sýnið verktökunum tillitsemi. Þeir eru eingöngu að vinna vinnuna sína og koma ekkert að ákvarðanatöku varðandi verkefnið.