Nú styttist í uppskeruhátíð hestafólks og að sjálfssögðu verða þar heiðraðir þeir knapar sem hafa náð hvað bestum árangri á árinu. Einn okkar reyndasti skeiðkeppnisknapi Ingibergur Árnason er einn af fimm sem eru tilnefndir sem skeiðknapi ársins.
Í dag standa Ingibergur og hryssan hans Sólveig frá Kirkjubæ í 2. sæti á stöðulista í 100m flugskeiði á tímanum 7.30, þeim frábæra árangri náðu þau á Sörlavöllum. Einnig standa þau í 4. sæti á stöðulista í 250m skeiði á tímanum 21.64.
Árið byrjaði vel hjá Ingibergi og Sólveigu, í apríl sigruðu þau 100 metra skeið í 1. deildinni í hestaíþróttum með tímann 7.95 sek. Í maí tóku þau þátt 100m skeiði á Hafnarfjarðarmeistaramóti Sörla og gera sér lítið fyrir og sigra þar á svakalegum tíma 7.30 sek! Þau endurtaka svo leikinn seinnihlutan í maí og sigra 100m skeið á WR íþróttamóti Sleipnis. Í júní fara þau á Reykjavíkurmeistaramót Fáks og sigra þar 250m skeið á tímanum 21.64 og ná þar með þeirra besta árangri í 250m skeiði. Einnig enda þau í 2. sæti í Flugskeiði á tímanum 7.51.
Í júlí er komið að stærsta móti ársins sem allir bíða eftir – Landsmóti. Fyrir það stóðu Sólveig og Ingibergur efst á stöðulista yfir landið í 100m flugskeiði og í 250m skeiði þar sem þau voru jöfn þeim Konráði og Kastori. Ingibergur og Sólveig stóðu sig feikna vel og enduðu þar í 5. sæti í 100m flugskeiði á tímanum 7.71 og í 7. sæti í 250m skeiði á tímanum 22.39.
Í lok júlí var komið að Íslandsmóti ungmenna og fullorðinna og stóðu þau sig þar frábærlega vel. Uppskáru 2. sæti í 250m skeiði á tímanum 22.73 og 2. sæti í 100m Flugskeiði á tímanum 7.33
Það má því segja að árið hjá Ingibergi og Sólveigu hafi verið einstakt, enda um einstaklega fljótt par að ræða.
Við óskum Ingibergi innilega til hamingju með tilnefninguna.