Tilnefningar til knapaverðlauna 2024

Ingibergur og Sólveig 

Nú styttist í uppskeruhátíð hestafólks og að sjálfssögðu verða þar heiðraðir þeir knapar sem hafa náð hvað bestum árangri á árinu. Einn okkar reyndasti skeiðkeppnisknapi Ingibergur Árnason er einn af fimm sem eru tilnefndir sem skeiðknapi ársins.

Í dag standa Ingibergur og hryssan hans Sólveig frá Kirkjubæ í 2. sæti á stöðulista í 100m flugskeiði á tímanum 7.30, þeim frábæra árangri náðu þau á Sörlavöllum. Einnig standa þau í 4. sæti á stöðulista í 250m skeiði á tímanum 21.64.

Árið byrjaði vel hjá Ingibergi og Sólveigu, í apríl sigruðu þau 100 metra skeið í 1. deildinni í hestaíþróttum með tímann 7.95 sek. Í maí tóku þau þátt 100m skeiði á Hafnarfjarðarmeistaramóti Sörla og gera sér lítið fyrir og sigra þar á svakalegum tíma 7.30 sek! Þau endurtaka svo leikinn seinnihlutan í maí og sigra 100m skeið á WR íþróttamóti Sleipnis. Í júní fara þau á Reykjavíkurmeistaramót Fáks og sigra þar 250m skeið á tímanum 21.64 og ná þar með þeirra besta árangri í 250m skeiði. Einnig enda þau í 2. sæti í Flugskeiði á tímanum 7.51.

Í júlí er komið að stærsta móti ársins sem allir bíða eftir – Landsmóti. Fyrir það stóðu Sólveig og Ingibergur efst á stöðulista yfir landið í 100m flugskeiði og í 250m skeiði þar sem þau voru jöfn þeim Konráði og Kastori. Ingibergur og Sólveig stóðu sig feikna vel og enduðu þar í 5. sæti í 100m flugskeiði á tímanum 7.71 og í 7. sæti í 250m skeiði á tímanum 22.39.

Í lok júlí var komið að Íslandsmóti ungmenna og fullorðinna og stóðu þau sig þar frábærlega vel. Uppskáru 2. sæti í 250m skeiði á tímanum 22.73 og 2. sæti í 100m Flugskeiði á tímanum 7.33

Það má því segja að árið hjá Ingibergi og Sólveigu hafi verið einstakt, enda um einstaklega fljótt par að ræða.

Við óskum Ingibergi innilega til hamingju með tilnefninguna.

Hér má sjá frétt á heimasíðu LH um tilnefningarnar.