Æskulýðsnefnd hefur lengi haft áhuga á að útbúa Trekk braut á svæði okkar Sörlamanna og hefur sá draumur nú ræst. Með hjálp áhugasamra er búið að útbúa fjórar þrautir inni í æfingavellinum og munu þrautir bætast við jafnt og þétt á næstunni, það á eftir að merkja upphaf og endi hverrar þrautar en við skulum ekki láta það stoppa okkur!
Við viljum biðja þau sem nýta sér þrautirnar að ganga vel um og láta vita ef eitthvað þarf að laga með því að senda tölvupóst á aeskulydsnefnd@sorli.is.
Þær þrautir sem nú þegar eru komnar upp:
Brú
Riðið yfir brú, á feti
Teymt yfir brú, framkvæmt á feti og knapi gengur á undan hesti
Pallur
Ríða upp á pall, ríða hestinum á feti upp á pall, stöðva hann þar og af pallinum á feti
Teyma upp á pall, teyma hestinn á feti upp á pall, stöðva hann þar og teyma af pallinum á feti. Knapinn ræður því hvort hann fer sjálfur upp á pallinn eða ekki.
S beygja
Ríða S beygju, framkvæmt á feti. L 4m, B 0,9m. Það er leyfilegt að snerta slárnar en ekki hrinda þeim.
Teyma S beygju, framkvæmt á feti, knapi gengur sömu leið og hestur.
Bakka (á baki)
Bakka 4m eftir 8m löngum og 0.8m breiðum gangi sem afmarkast af staurum á jörðinni, án þess að snerta staurana. Leyfilegt er að snerta staurana þegar riðið er inn í ganginn (áður en byrjað er að bakka). Framfætur hestsins þurfa að nema staðar á eða framan við fremri línuna sem afmarkar þessa 4m. Hesturinn er svo látinn bakka, án þess að stoppa, þar til framfætur eru komnir á eða aftur fyrir aftari línuna. Gangtegund sem riðið er á inn í ganginn og út úr honum er frjáls. Hesturinn má ekki stíga út fyrir staurana, hvorki fyrir né eftir bakkið.
Við hvetjum alla félagsmenn, unga sem aldna til að fara út að leika sér!
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar styrkti æskulýðsefnd félagsins og gaf okkur trjástofna til að búa til hluta af brautunum.
F.h. æskulýðsnefndar Sörla
Svanbjörg Vilbergsdóttir, formaður
Styrktaraðili Trekk í Sörla er R&E ehf.