1. Yfirþjálfari fer yfir stöðu mála
Hinrik Þór yfirþjálfari óskaði eftir að fá að kíkja á stjórnarfund og fara yfir æfingar og námskeiðshald og hvað félagið þarf að gera til að verða fyrirmyndafélag ÍSÍ.
Hinrik mætti til fundarins í gegnum fjarfundarbúnað. Hann upplýsti stjórn um að undirbúningur fyrir vetrarstarfið væri í fullum gangi og gengi vel. Skráningar fullorðinna á reiðmennskuæfingar fari afskaplega vel af stað. Hinrik fjallaði einnig um barna- og unglingastarfið í vetur og að áhersla yrði lögð á verklegar æfingar líkt og ákall er um frá þeim er sóttu æfingarnar síðastliðinn vetur. Verklegar reiðmennskuæfingar munu hefjast um miðjan október nk.
Hinrik kynnti einnig fyrir stjórn hvað félagið þyrfti að gera til að teljast fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Sörli uppfyllir þau skilyrði að mestu leyti nú þegar. Stjórn er áhugasöm um að leitast við að uppfylla öll skilyrði ÍSÍ hvað þetta varðar og var ákveðið að taka þau skref sem þarf, með aðstoð Hinriks á næstunni og fyrir komandi vetur.
2. Sörlalundur
Sörlalundur formleg víxla og gróðursetning: Farið yfir næstu skref varðandi gróðursetningu trjáa og skipulag á svæðinu sem Sörli hefur fengið úthlutað. Ákveðið að ræða við fulltrúa skógræktarinnar og kaupa plöntur til gróðursetningar. Einnig ákveðið að stjórnarmenn og aðrir sjálfboðaliðar taki upp tré sem eru við reiðvegi (einkum við skógarhringinn) til að gróðursetja í Sörlalundi í haust.
3. Aðalfundur – stjórn, nefndir
Formaður lýsir því yfir að hann muni gefa kost á sér til formanns á næsta aðalfundi sem áætlað er að verði boðað til í lok september nk. Tímabil þriggja núverandi stjórnarmanna rennur út nú.
4. Landsþing – þingfulltúar félagins
Fyrirhugað Landsþing LH er á dagskrá 4. og 5. nóvember nk. Sörli hefur 13 þingsæti á þinginu. Meirihluti stjórnar lýsir áhuga á að sitja þingið, auk framkvæmdarstjóra. Einhverjir félagsmenn hafa jafnframt lýst yfir áhuga á því. Ákveðið að auglýsa Landsþingið á heimasíðu félagsins og samfélagsmiðlum og hvetja áhugasama félagsmenn sem vilja taka þátt að setja sig í samband við framkvæmdarstjóra. Stefnt að því að halda undirbúningsfund með þingfulltrúum um það bil viku fyrir þingið
5. Staða reiðhallarmála
Formaður gerir grein fyrir stöðu reiðhallarmála og að samningaviðræður standi yfir við Eykt sem var með tilboð í byggingu reiðhallarinnar. Niðurstaða mun liggja fyrir á næstu dögum, sem síðan fer til afgreiðslu hjá Bæjarráði.
6. Frá framkvæmdastjóra
a. Reiðhöll, lýsing og fleira
Reiðhöll, lýsing ofl – framkvæmdarstjóri fór yfir þær framkvæmdir sem standa yfir í reiðhöllinni. Skipt hefur verið um lýsingu í höllinni að mestu leyti og mun verkefninu ljúka á næstunni. Þá hefur fulltrúi Hafnarfjarðarbæjar sem hefur haft milligöngu um viðhald á mannvirkjum bæjarins verið í samskiptum við framkvæmdarstjóra m.a. um viðhald vegna leka og myglu og fleira.
b. Félagshús – þrif, viðhald ofl.
Framkvæmdarstjóri upplýsir stjórn og að búð sé að þrífa félagshúsið hátt og lágt. Hins vegar séu milligerði í stíum sum hver í slæmu ásigkomulagi. Ákveðið að skipta út þeim milligerðum sem eru ónothæf og lagfæra það sem mögulegt er. Framkvæmdarstjóri hefur aflað tilboða vegna þessa frá tveimur fyrirtækjum og mun skoða verð á fleiri stöðum. Þá var rætt um gólfið í reiðhöll félagshússins sem og þrif og umsjá reiðhallarinnar. Rætt um samráð við meðeigendur að reiðhöllinni í félagshúsinu.
c. Nýtt tamningagerði fyrir aftan reiðhöllina
Áður hafði verið rætt um að mæla fyrir tamningagerði fyrir aftan reiðhöllina, þ.e. á milli reiðhallar og félagshúss. Ákveðið að skoða nánar og kanna kostnað við slíka uppsetningu.
d. Styrktarmál v.móta
Framkvæmdarstjóri upplýsti um samskipti við nokkra styrktaraðila. Einnig rætt um að leitast við að endurnýja samninga við styrktaraðila og skoða nýja möguleika í þeim efnum.
e. Viðrunarhólf
Framkvæmdarstjóri upplýsir um stöðuna og að unnið sé að því að fá aðgengi að vatni í viðrunarhólfið.
f. Kynbótadómpallur
Rætt um fyrirhugað viðhald á kynbótadómpallinum sem er í nokkuð slæmu ástandi. Ákveðið hefur verið að setja ristar í gólf svo unnt sé að háþrýstiþvo hann. Síðan verður hann málaður. Jafnframt verður leitast við að bæta loftun til að fyrirbyggja frekari rakaskemmdir.
g. Tiltekt á kerrusvæði, gámur o.fl
Ljóst er að fjarlægja þarf að kerrur og annað af kerrusvæðinu áður en jarðvegsvinna hefst á svæðinu sem er áætlað að verði á næstunni.
h. Tækjamál, ruddaslátturvél, valtari o.fl
Rætt um félaginu vanti valtara fyrir næsta vor. Ákveðið að tveir stjórnarmenn fari og skoði möguleika í þeim efnum. Einnig rætt um ruddasláttuvél í eigu félagsins sem þarf að komast í geymslu. Ákveðið að kanna hvort að hún komist í geymslugám í eigu félagsins.
5. Önnur mál
Framkvæmdarstjóri kynnti drög að viðburðardagatali fyrir veturinn 2022-23.
Ekki fleira gert og fundið slitið kl. 22:45