Kæru félagsmenn Sörla

 

Að gefnu tilefni og í ljósi þeirra neikvæðu umræðna og samskipta sem skapast hafa á meðal mismunandi útivistarhópa hér á höfuðborgarsvæðinu höfum við í Hestamannafélaginu Sörla ákveðið að senda opið bréf með áskorun til Landsambands Hestamannafélaga. Í bréfinu felst áskorun um að LH standi fyrir og leiði vinnu við lausn þeirra ágreiningsmála sem upp hafa komi vegna árekstra ríðandi umferðar og annarrar umferðar. Þetta verði gert í samvinnu íþróttahreyfingarinnar, opinberra aðila og forsvarsmanna annara útivistarhópa.  Teljum við brýnt að farið verði í þessa vinnu strax og áður en að ástandið verður verra, bæði á útivistarsvæðunum sjálfum sem og á veraldarvefnum.  Í raun snýr öll þessi umræða og allir þessir árekstrar um tilverurétt og öryggismál allra, á öllum þeim stígum, slóðum og vegum sem eru í útjaðri höfuðborgarsvæðisins og að allir geti verið þar óhultir.

Í ljósi þessa langar okkur að biðja félagsmenn okkar að skoða vel kortavef LH, slóðin er map.is/lh/ og kynna sér hvar við merktar reiðleiðir er að finna. Auk þess viljum við biðja ykkur að vera meðvituð um það að þegar við erum komin út fyrir hringina okkar tvo þá erum við yfirleitt komin inn á sameiginlega útivistarvegi þar sem að önnur umferð er leyfð. Það er síðan von okkar og trú að aðrir útivistarhópar biðli til síns fólks að gera það sama með öryggi allra vegfarenda að leiðarljósi.  Sömuleiðis viljum við biðja alla ,,Sörlverja“ að huga að náttúrunni okkar. Við viljum ganga vel um og í sátt og samlyndi við umhverfið okkar.  Því verðum við að passa að ferðast ekki um sameiginlega stíga ef mikil bleyta er og að hestarnir skilja eftir sig djúp hófför. Við vitum og höfum talað um það lengi við Hafnarfjarðarbæ að það vanti mikið upp á merkingar og sem betur fer stendur það til bóta með nýjum starfshóp sem er að rýna þessi sameiginlegu svæði.

Eins og allir vita erum við búin að vera að berjast fyrir því að fá Skógarhringinn og Hraunhringinn skilgreinda sem okkar æfingasvæði og að þar verði ekki umferð annara vegfarenda. Hestamenn sjálfir þurfa sömuleiðis, undantekningarlaust, að taka alvarlega þá slóða og þær leiðir sem ekki eru ætlaðir til útreiða. Nú gildir hin gullna regla vináttunnar: ,,Hlustaðu á aðra á sama hátt og þú vilt að aðrir hlusti á þig.”  Göngustígarnir í skógræktinni og í kringum Hvaleyrarvatn eru ekki reiðvegir. Virðum það.

Varðandi Stórhöfðastíg, þá má fara um hann á hestum, það sést á kortavefnum að þetta er skipulögð reiðleið. Hin almenna regla gildir auðvitað þarna eins og annarsstaðar þ.e.a.s. að við hestamenn eigum við ekki að fara þarna um  þegar frost er um það bil að fara úr jörðu þar sem að hrossin sökkva í götuna og skemma veginn. Munum líka að Stórhöfðastígurinn er þar að auki algjör sparileið sem við förum ekki fyrr en í lok maí eða byrjun júní í venjulegu árferði í þurru og góðu veðri.

Verum kurteis, verum upplýsandi og ekki með dónaskap og ásakanir þegar við hittum eða mætum öðru útivistafólki. Útivisarfólki fer sífellt fjölgandi og mun gera það næstu árin með tilkomu fleiri möguleika á allskyns græjum til útivistar og breyttri þjóðfélagsmynd hvað varðar afþreyingu og heilsueflingu. Við þurfum að hugsa til framtíðar, til komandi kynslóða og við þurfum að hafa það að markmiði að minnka slysahættu og skapa betri stemmingu og sátt hvert við annað. Hestamannafélagið Sörli, hefur í yfir 70  farsæl ár lifað með það að markmiði að vera í sátt og samlyndi við umhverfi, menn og dýr. Það hefur tekist með miklum ágætum enda stunda hundruðir manna frá 3ja til 99 ára íþróttina á svæðinu. Okkur er mikið í mun að eiga góð samskipti við aðra útivistarhópa þannig að allir geti upplifað sig eins örugga og kostur er á í okkar dásamlega fallega upplandi og á félagssvæðinu. Auðvitað viljum við líka standa fast í lappirnar og benda á að við erum ekkert að fara. Þarna eru hesthúsin okkar og þarna er okkar æfingasvæði og þegar fólk þyrpist á það svæði sem við höfum verið svo lánsöm að nýta í áratugi þá þurfum við auðvita að upplýsa nýja notendur og fræða. Það er ekki vilji okkar að skapa leiðindi eða vera með áform þess eðlis að samskipti mismunandi hópa leiði til slysa á fólki. Innan raða hestamanna eru lítil börn, fullorðið fólk, unghross og fleira sem þarfnast tillitsemi náungans.   

Hér að neðan má sjá erindið sem sent var til Landssambands Hestamannafélaga sem og kort sem hefur að geyma reiðleiðir.