Forvarnarstefna

Enginn dettur lengra en til jarðar 

Forvarnarmál


Stefna Hestamannafélagsins Sörla styðst í megin atriðum við stefnu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og ÍBH. Hestamannafélagið Sörli birtir á heimasíðu sinni fræðslu / leiðara fyrir félagsmenn sína.

Í megindráttum er stefna félagsins eftirfarandi:

Hestamannafélagið Sörli er þess meðvitað að hverskyns ofbeldi getur orðið innan íþróttastarfs þess eða í öðru félagsstarfi. Starfandi í sjálfboðastarfi er forvarnarfulltrúi íþrótta- og æskulýðsstarfs Sörla og hefur hann það að markmiði að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna.

Markmiðið er að allir geti tekið virkan þátt á sínum vettvangi og jafnframt leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem hafa átt sér stað án þess að óttast afleiðingar. Þjónusta og ráðgjöf forvarnarfulltrúa stendur öllum þeim til boða sem tilheyra skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi hjá félaginu.

Til forvarnarfulltrúa (forvarnarfulltrui@sorli.is) er hægt að leita með mál er varða andlegt-, líkamlegt- og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti, ólöglegrar notkunar tóbaks og vímuefna og önnur sambærileg tilvik sem hafa komið upp á vettvangi íþrótta- eða æskulýðsstarfs.

Hestamannafélagið Sörli er andvígt allri neyslu tóbaks og áfengis innan við 20 ára. Neysla vímuefna er með öllu óheimil í skipulögðum keppnum, námskeiðum og á æfingum á vegum félagsins. Hestamannafélagið Sörli hvetur þjálfara, framkvæmdastjóra, æskulýðsnefnd og alla félagsmenn til að bregðast sérstaklega við allri vímuefnaneyslu iðkenda undir 18 ára aldri. Sörli mun upplýsa foreldra undantekningarlaust um slíka neyslu.

Við vímuefna- og tóbaksneyslu þeirra sem eru sjálfráða á félagið einungis að bregðast við neyslu þegar um er að ræða brot á reglum félagsins. Neyslan hefur neiðkvæð áhrif á ástundun iðkenda, frammistöðu þeirra og ímynd félagsins. Viðbrögð Sörla við brotum á reglum þessum eiga að vera í formi tilmæla og ábendinga. Skili slík viðbrögð ekki árangri getur komið til tímabundins banns frá æfingum og/eða keppni. Viðbrögð Sörla munu samt ávallt mótast af vilja til að aðstoða iðkandann við að laga sig að reglum þannig að hann haldi áfram að starfa innan félagsins.

Stjórn og framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Sörla hvetur yfirþjálfara, reiðkennara, æskulýðsnefnd og aðra félagsmenn er koma að starfi með börnum og unglingum og að öðru starfi félagsins þar sem notkun vímuefna er bönnuð að hafa með því eftirlit.

Starfi forvarnarfulltrúa sinnir Jóhannes Magnús Ármannsson. Hægt er að hafa samband með því að senda tölvupóst á forvarnarfulltrui@sorli.is sem verður svarað eins fljótt og hægt er. Ef um neyðartilfelli er að ræða getur framkvæmdastjóri félagsins komið á sambandi gegnum síma.

Vísað er til stefnu um forvarnir í kynferðis- og eineltismálum á heimasíðu Sörla (Þessi síða). Þar er vísað í eineltisforvarnir ÍBH annars vegar og forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi og áreiti hins vegar.

Sörli setur fram stefnu sína í samræmi við þessar greinar í þeim tilgangi að tryggja að allir þeir einstaklingar sem stunda íþróttir innan félagsins eða sinni öðrum störfum innan þess, geti fylgt einföldum en skýrum reglum í samskiptum sínum hvert við annað. Þá hefur Hestamannafélagið Sörli, að fyrirmynd ÍSÍ, sett tiltekinn hnapp inn á heimasíðu félagsins en hnappur þessi vísar á efni tengt forvörnum gegn kynferðislegu áreiti og ofbeldi.