Fræðslustefna

Flest verður fróðum að kvæði 

Fræðslustefna Hestamannafélagsins Sörla

Íþróttastarf er uppeldisstarf og á það við um allar íþróttagreinar. Hestamannafélagið Sörli hefur það að markmiði að kenna börnum og unglingum að fylgja settum reglum og tileinka sér hollar lífsvenjur, umgengni við dýr og faglega nálgun við ástundun hestamennsku. Hestamannafélagið Sörli hefur að markmiði að veita börnum möguleika á að geta sinnt áhugamáli sínu og íþrótt undir handleiðslu frá menntuðum reiðkennurum/þjálfurum bæði á haustmisseri sem og á vormisseri.

Félagið skal hafa yfir að ráða yfirþjálfara sem er  fagmenntaður reiðkennari er skipuleggur starf vetrarins í samvinnu við framkvæmdastjóra, Æskulýðsnefnd og Fræðslunefnd eftir því sem við á. Skal sú vinna vera unnin á faglegan hátt þar sem að sanngirni og jafnræði skal haft að leiðarljósi. Félagið stefnir að því að námsskrá fyrir æfingar barna og unglinga skuli liggja fyrir eigi síðar en 1. ágúst ár hvert og hefja skal æfingar eigi síðar en 5. september.  Félagið hefur einnig að markmiði að halda a.m.k. eitt 6 – 8 vikna námskeið á hverju ári fyrir börn á aldrinum 8 ára og yngri.

Félagið hefur síðustu ár rekið Félagshesthús Sörla þar sem að börn og unglingar geta fengið hest að láni eða verið með sinn eigin hest undir leiðsögn á verði sem eðlilegt getur talist. Markmiðið er að efla ungliðastarf félagsins um leið og að geta gefið fleiri en áður tækifæri til að stunda íþróttina.

Sérstök nefnd er ber heitið Fræðslunefnd starfar á vegum Sörla. Hún hefur það hlutverk að fræða eldri íþróttaiðkendur hestamennskunnar með námskeiðum og fyrirlestrum yfir vetrartímann í samvinnu við framkvæmdastjóra og yfirþjálfara félagsins.